Á föstudaginn skrifaði Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) undir nýjan kjarasamning við kjara- og mannauðssvið fjármálaráðuneytisins.
Sama dag tapaði LSS fyrir félagsdómi og voru áætlaðar verkfallsaðgerðir dæmdar ólöglegar.
„Framsetning okkar á verkfallsboðuninni var dæmd ólögmæt. Við vildum undirskilja einn verkþátt, við vildum reyna að vera eingöngu í verkfalli í þeim verkþætti sem mætti missa sig að okkar mati,“ segir Bjarni Ingimarsson, formaður LSS.
Verkþátturinn sem um ræðir eru svokölluð F4-verkefni sem eru flutningar sem þarf að sinna við fyrsta tækifæri, flutningar sem mega oft aðeins bíða, að sögn Bjarna.
„Inni í því eru líka verkefni sem þarf að sinna eins og fólk sem er að fara í aðgerðir, rannsóknir og annað. Það sem hefði verið undanþegið hefði verið flutningar þar sem þú ert ekki að færa fólk á hærra þjónustustig. Það er þá bara búið að gefa það út að við þurfum að fara í allsherjarverkfall ef við ætlum að gera svona,“ segir Bjarni.
Tekur hann fram að áfram verður stuðst við undanþágulista í verkföllum sambandsins í framtíðinni. Þeir sem eru á undanþágulistum þurfa þá einfaldlega að sinna öllum verkefnum.
„Það skapar ákveðin vandamál varðandi fjölda bifreiða og mönnun, sem við vorum að reyna að passa. Ábyrgðin er þá bara farin á stofnanir,“ segir Bjarni.
„Þetta skerðir aðeins hvernig við höfum sett fram verkföllin og hvernig við getum náð fram pressu. Á móti fer ábyrgðin svolítið yfir á rekstraraðila um hvaða verkefni bílarnir eru sendir í hverju sinni þegar um verkfall er að ræða.“
Bjarni segir kjarasamninginn fara áleiðis að því sem LSS hefur verið að sækja en hefði þó viljað að hann hefði gengið lengra.
„Við náðum ekki lokamarkinu, en svona áleiðis. Það eru nokkrir þættir inni í kjarasamningnum sem á eftir að skoða á samningstímanum.
Við fengum ákveðið mat á jöfnun launa og höfum verið að vinna í því að reyna að samræma laun þeirra sem starfa hjá heilbrigðisstofnunum og sveitarfélögunum. Við erum komin svona hálfa leið kannski,“ segir Bjarni.
Nýr samningur gildir til fjögurra ára, þar með talið rúmt ár aftur í tíman.
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á morgun og miðvikudaginn og hefst atkvæðagreiðsla um hann á fimmtudag.