Skrifuðu undir kjarasamning og töpuðu í félagsdómi

„Framsetning okkar á verkfallsboðuninni var dæmd ólögmæt,“ segir for­maður LSS.
„Framsetning okkar á verkfallsboðuninni var dæmd ólögmæt,“ segir for­maður LSS. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Á föstu­dag­inn skrifaði Lands­sam­band slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna (LSS) und­ir nýj­an kjara­samn­ing við kjara- og mannauðssvið fjár­málaráðuneyt­is­ins.

Sama dag tapaði LSS fyr­ir fé­lags­dómi og voru áætlaðar verk­fallsaðgerðir dæmd­ar ólög­leg­ar.

„Fram­setn­ing okk­ar á verk­falls­boðun­inni var dæmd ólög­mæt. Við vild­um und­ir­skilja einn verkþátt, við vild­um reyna að vera ein­göngu í verk­falli í þeim verkþætti sem mætti missa sig að okk­ar mati,“ seg­ir Bjarni Ingimars­son, for­maður LSS.

Verkþátt­ur­inn sem um ræðir eru svo­kölluð F4-verk­efni sem eru flutn­ing­ar sem þarf að sinna við fyrsta tæki­færi, flutn­ing­ar sem mega oft aðeins bíða, að sögn Bjarna.

„Inni í því eru líka verk­efni sem þarf að sinna eins og fólk sem er að fara í aðgerðir, rann­sókn­ir og annað. Það sem hefði verið und­anþegið hefði verið flutn­ing­ar þar sem þú ert ekki að færa fólk á hærra þjón­ustu­stig. Það er þá bara búið að gefa það út að við þurf­um að fara í alls­herj­ar­verk­fall ef við ætl­um að gera svona,“ seg­ir Bjarni.

Ábyrgðin sett á stofn­an­ir

Tek­ur hann fram að áfram verður stuðst við und­anþágulista í verk­föll­um sam­bands­ins í framtíðinni. Þeir sem eru á und­anþágulist­um þurfa þá ein­fald­lega að sinna öll­um verk­efn­um.

„Það skap­ar ákveðin vanda­mál varðandi fjölda bif­reiða og mönn­un, sem við vor­um að reyna að passa. Ábyrgðin er þá bara far­in á stofn­an­ir,“ seg­ir Bjarni.

„Þetta skerðir aðeins hvernig við höf­um sett fram verk­föll­in og hvernig við get­um náð fram pressu. Á móti fer ábyrgðin svo­lítið yfir á rekstr­araðila um hvaða verk­efni bíl­arn­ir eru send­ir í hverju sinni þegar um verk­fall er að ræða.“  

Kom­in hálfa leið

Bjarni seg­ir kjara­samn­ing­inn fara áleiðis að því sem LSS hef­ur verið að sækja en hefði þó viljað að hann hefði gengið lengra.

„Við náðum ekki loka­mark­inu, en svona áleiðis. Það eru nokkr­ir þætt­ir inni í kjara­samn­ingn­um sem á eft­ir að skoða á samn­ings­tím­an­um.

Við feng­um ákveðið mat á jöfn­un launa og höf­um verið að vinna í því að reyna að sam­ræma laun þeirra sem starfa hjá heil­brigðis­stofn­un­um og sveit­ar­fé­lög­un­um. Við erum kom­in svona hálfa leið kannski,“ seg­ir Bjarni.

Nýr samn­ing­ur gild­ir til fjög­urra ára, þar með talið rúmt ár aft­ur í tím­an. 

Samn­ing­ur­inn verður kynnt­ur fé­lags­mönn­um á morg­un og miðviku­dag­inn og hefst at­kvæðagreiðsla um hann á fimmtu­dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert