Formaður Starfsgreinasambandsins sakar stjórnvöld um svik við kjósendur þar sem hann telur afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks vera skattahækkun dulbúna sem einföldun.
Ríkisstjórnin hefur lagt til í fjármálaáætlun að afnema samsköttun hjóna og sambýlisfólks milli skattþrepa. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir að eitt af markmiðunum sé að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að í raun sé um að ræða skattahækkun upp á 2,5 milljarða króna.
„Þetta eru ekki smámunir – þessi fjárhæð jafngildir fjórðungi af fyrirhuguðum hækkunum á veiðigjöldum,“ skrifar verkalýðsleiðtoginn á Facebook.
Enn alvarlegra sé að stjórnarflokkarnir hafi lofað í síðustu kosningum að tekjuskattar einstaklinga yrðu ekki hækkaðir.
„Nú, rúmlega 100 dögum síðar, er boðuð breyting sem felur í sér nákvæmlega það sem lofað var að gera ekki: hækkun á skattbyrði heimilanna,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir það rangt að halda því fram að breytingin hafi aðeins áhrif á efstu tekjutíundir, heldur lendi hún einnig harkalega á skuldsettum barnafjölskyldum „þar sem annað foreldrið vinnur jafnvel tvær vinnur eða mikla yfirvinnu til að ná endum saman, á meðan hitt sinnir börnum eða er í hlutastarfi“.
Þessi heimili hafi hingað til getað dreift skattbyrðinni á milli sín með sameiginlegri nýtingu skattþrepa, en sú leið verður nú lokuð.
„Það þarf að fara fram alvöru greining á áhrifum þessarar breytingar, áður en lengra er haldið. Því eitt er alveg ljóst: þetta er skattahækkun – og hún er ekkert annað en svik við kjósendur.“