Afnám samsköttunar sé skattahækkun í dulargervi

„Eitt er alveg ljóst,“ skrifar Vilhjálmur, „þetta er skattahækkun.“ Hann …
„Eitt er alveg ljóst,“ skrifar Vilhjálmur, „þetta er skattahækkun.“ Hann telur meintu hækkunina nema 2,5 milljörðum króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Starfs­greina­sam­bands­ins sak­ar stjórn­völd um svik við kjós­end­ur þar sem hann tel­ur af­nám sam­skött­un­ar hjóna og sam­býl­is­fólks vera skatta­hækk­un dul­búna sem ein­föld­un.

Rík­is­stjórn­in hef­ur lagt til í fjár­mála­áætl­un að af­nema sam­skött­un hjóna og sam­býl­is­fólks milli skattþrepa. Í fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að eitt af mark­miðunum sé að bæta skatt­skil, loka gluf­um og fækka und­anþágum.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, seg­ir að í raun sé um að ræða skatta­hækk­un upp á 2,5 millj­arða króna.

„Þetta eru ekki smá­mun­ir – þessi fjár­hæð jafn­gild­ir fjórðungi af fyr­ir­huguðum hækk­un­um á veiðigjöld­um,“ skrif­ar verka­lýðsleiðtog­inn á Face­book.

Svik við lof­orð

Enn al­var­legra sé að stjórn­ar­flokk­arn­ir hafi lofað í síðustu kosn­ing­um að tekju­skatt­ar ein­stak­linga yrðu ekki hækkaðir.

„Nú, rúm­lega 100 dög­um síðar, er boðuð breyt­ing sem fel­ur í sér ná­kvæm­lega það sem lofað var að gera ekki: hækk­un á skatt­byrði heim­il­anna,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Hann seg­ir það rangt að halda því fram að breyt­ing­in hafi aðeins áhrif á efstu tekju­tí­und­ir, held­ur lendi hún einnig harka­lega á skuld­sett­um barna­fjöl­skyld­um „þar sem annað for­eldrið vinn­ur jafn­vel tvær vinn­ur eða mikla yf­ir­vinnu til að ná end­um sam­an, á meðan hitt sinn­ir börn­um eða er í hluta­starfi“.

Þessi heim­ili hafi hingað til getað dreift skatt­byrðinni á milli sín með sam­eig­in­legri nýt­ingu skattþrepa, en sú leið verður nú lokuð.

„Það þarf að fara fram al­vöru grein­ing á áhrif­um þess­ar­ar breyt­ing­ar, áður en lengra er haldið. Því eitt er al­veg ljóst: þetta er skatta­hækk­un – og hún er ekk­ert annað en svik við kjós­end­ur.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert