„Við höfum áhyggjur af þessu, þetta er hluti af umhverfi íbúa í Ölfusi og gesta þeirra. Áin rennur fram hjá nokkuð þéttbýlu svæði, eins og Bæjarþorpinu og Bláengi þar sem allnokkrir búa. Síðan er þetta veiðiá og við höfum verið að beina því til nágranna okkar í Hveragerði að gera gangskör í því að bæta úr þessum málum og við vonumst til að það sé að ganga eftir.“
Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, í samtali við Morgunblaðið, en leitað var viðbragða hans við miklum fiskidauða í Varmá sem rennur um Hveragerði og Ölfus.
Í síðustu viku urðu menn varir við dauðan silung í Varmá og var talið að um umtalsverðan fjölda fiska væri að ræða, en í ánni er talinn vera einhver stærsti sjóbirtingsstofn á Suðurlandi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mengunarslys hendir, en veiði hefur verið bönnuð í Varmá síðustu tvö sumur vegna mengunarvandamála. Ekki verður leyft að veiða í ánni fyrr en skolphreinsun í Hveragerði verður komin í lag. Að þessu sinni er mengunarslysið rakið til þess að klórblandað vatn hafi borist í ána frá sundlaug Hvergerðinga. Segir Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, sem er með veiðiréttinn á leigu, að þetta sé í þriðja skiptið sem mengunarslys verður í ánni af völdum klórs úr sundlauginni.
„Hveragerði hefur verið að stækka mikið á seinustu árum og Varmáin sem viðtaki ræður ekki við hvernig frá frárennslismálum er gengið. Það þarf að laga það hratt og örugglega,“ segir Elliði og segir að málið hafi verið rætt við Hvergerðinga og gott samstarf sé á milli aðila.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.