Í liðinni viku var bæjarstjórn Reykjanesbæjar kölluð á aukafund til þess að óska eftir skammtímaláni allt að einum milljarði króna. Á fundi bæjarráðs deginum á undan var óskað eftir heimild fyrir langtímaláni upp á 2,5 milljarða króna, meðal annars til að greiða niður skammtímalánið.
Þetta kemur fram í fundargerðum bæjarstjórnar og bæjarráðs.
Á föstudaginn fór aukafundur bæjarstjórnar fram og þar samþykktu allir bæjarfulltrúar að sækjast eftir skammtímaláni hjá Íslandsbanka upp á einn milljarð króna, með lokagjalddaga þann 31. desember 2025.
„Lántaka er ætluð til að brúa tímabil á meðan langtímafjármögnun sveitarfélagsins stendur yfir,“ segir í fundargerðinni.
Eins og mbl.is greindi frá 14. febrúar þá sóttist bærinn einnig eftir láni upp á einn milljarð króna vegna lausafjárvanda. Þetta er ekki milljarður ofan á þann milljarð heldur er í raun verið að framlengja heimildina til að taka skammtímalánið.
Á fundi bæjarráðs á fimmtudaginn í síðustu viku var einnig samþykkt að leita að langtímafjármögnun fyrir Reykjanesbæ allt að 2,5 milljörðum króna hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
„[...] Til að greiða upp skammtímafjármögnun sem tekin var á árinu 2025 og vegna framkvæmda á fjárfestingaráætlun 2025 sem ekki náðist að dreifa á árið,“ segir í fundargerð bæjarráðs frá 3. apríl.
Ætla má að bæjarstjórn taki málið fyrir á sínum næsta bæjarstjórnarfundi.
Ekki er langt síðan Reykjanesbær sóttist eftir 2,5 milljörðum króna í langtímalán en það gerðist líka 19. nóvember 2024. Er því um að ræða fimm milljarða í langtímalán á fimm mánaða tímabili.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, staðgengill bæjarstjóra og oddviti Framsóknar, segir að í næstu viku komi bókun á bæjarstjórnarfundi þar sem ítarlegri útskýring verður gerð á því af hverju bærinn hefur þurft að ráðast í þessar lántökur.
„Við erum í gríðarlegum fjárfestingum núna, að opna tvo nýja leikskóla, klára íþróttahúsið og sundlaugina við Stapaskóla, Holtaskóla og Myllubakkaskóla svo eitthvað sé nefnt. Þannig að það er svona framhlaðinn kostnaður á þessu ári. Við gerðum ráð fyrir tæplega tveimur milljörðum í framkvæmdir á þessu ári en það er búið að ganga vel í framkvæmdum núna í upphafi árs og við erum búin að fjárfesta nú þegar fyrir um 1.450 milljónir,“ segir Halldóra Fríða í samtali við mbl.is og bætir við:
„Svo eru nýgerðir kjarasamningar við kennara og útistandandi háir reikningar sem við eigum eftir að fá greidda frá ríkinu sem hafa áhrif.“