Forsvarsmenn Carbfix segja að niðurdæling koltvísýrings hafi ekki orsakað örvaða jarðskjálftavirkni vegna „þess hversu grunnt er dælt niður og á lágum þrýstingi og ekki stendur til að breyta því.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Carbfix í kjölfar þess að Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur varaði við áformum Carbfix á Bakka á Húsavík.
„Skjálftavirkni í og við Húsavík er vel þekkt. Carbfix tekur undir með Haraldi Sigurðssyni að taka þarf af allan vafa um áhrif verkefnis Carbfix í Norðurþingi og er það gert með yfirgripsmiklu mati á aðstæðum á svæðinu,“ segir í tilkynningu Carbfix.
Carbfix er með áform um að reisa svokallaða coda-stöð á Bakka.
Fram kemur að rannsóknarvinna í tengslum við verkefnið sé nýhafin og að unnið sé að staðarvali fyrir mögulegt niðurdælingarsvæði í samstarfi við sérfræðinga ÍSOR.
Markmiðið sé að koma fyrir niðurdælingu í öruggri fjarlægð frá virkum svæðum.
„Þá er frummat á hættu á skjálftavirkni eitt af fyrstu skrefum sem tekin eru fyrir öll svæði sem koma til greina fyrir starfsemi Carbfix, bæði hérlendis og erlendis. Við hlökkum til að deila niðurstöðum úr komandi rannsóknarvinnu þegar þær liggja fyrir á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningunni.