„Það er allt rólegt í Grindavík. Það eru engar lokanir í gangi og lífið þar gengur sinn vanagang,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
Í dag er vika liðin frá því áttunda eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni hófst frá því goshrinan þar hófst í desember 2023. Eldgosið stóð rétt yfir í um 6 klukkustundir sem gerir það stysta eldgosið í þessari goshrinu á Sundhnúkagígaröðinni.
Úlfar segir að atvinnustarfsemin í bænum sé með þeim hætti sem hún hefur verið undanfarnar vikur og mánuði og að jafnaði sé gist í 40 til 50 húsum í bænum.
„Staðan í bænum er svipuð eins og hún hefur verið. Gosið varð sem betur fer hálfræfilslegt og þetta fór allt betur en á horfðist til að byrja með. En svo er bara spurning hvað gerist í framhaldinu. Vísindamenn tala um að landris sé hafið á nýjan leik og væntanlega tekur það einhverja daga að meta stöðuna og lesa í upplýsingarnar,“ segir Úlfar.