Ríkisstjórnin hefur samþykkt að tillögu Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra að verja allt að 725 milljónum króna til stuðnings við bændur sem urðu fyrir tjóni vegna óvanalegs og erfiðs tíðarfars á landinu sumarið 2024.
Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins en þar segir að sumarið hafi verið óvenju kalt samkvæmd upplýsingum frá Veðurstofu Íslands eða það kaldasta á landsvísu síðan árið 1998.
Stuðningur verður tvíþættur, annars vegar vegna afurða- og gripatjóns sem atvinnuvegaráðuneytið annast og hins vegar vegna tjóns á hey og uppskeru sem fellur undir hlutverk Bjargráðasjóðs. Gert er ráð fyrir að stuðningur verði greiddur til ríflega 300 búa.
Áætlað er að tæp 60% af heildarstuðningi fari til framleiðenda á Norður- og Austurlandi en þau landssvæði urðu verst úti í kuldakastinu í júní 2024. Þá er áætlað að um 35% stuðningsins fari til framleiðenda á Suðurlandi þar sem rigning og kuldi ollu miklu tjóni á uppskeru.
„Fæðuöryggi er stórt öryggismál fyrir okkur á óvissutímum. Innlend matvælaframleiðsla spilar þar lykilhlutverk. Því koma stjórnvöld til móts við bændur til að minnka þau áföll sem varð á búum í kjölfar kuldakastsins,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.