Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem haldinn verður um næstu helgi.
Frestur til að skila inn framboði rann út á miðnætti 4. apríl síðastliðinn.
Kristrún tók við sem formaður Samfylkingarinnar á landsfundi 28. október 2022 og í stefnuræðu sinni á þeim tíma sagði hún: „Ég bauð mig fram til formanns til að leiða breytingar: Fyrst í flokknum okkar og svo í ríkisstjórn,“ að segir í tilkynningu.
Landsfundurinn verður haldinn í Stúdíó Fossaleyni í Grafarvogi dagana 11. og 12. apríl.
Á dagskrá fundarins eru m.a. kosningar í öll embætti flokksins, almennar umræður, breytingartillögur á stefnu, hátíðarerindi og 25 ára afmælisfögnuður Samfylkingarinnar þar sem m.a. allir fyrrverandi formenn flokksins koma saman.
Enn er hægt að bjóða sig fram í önnur embætti en formanns, en framboðsfrestur í þau er til 11. apríl kl. 15.30.