Eldur kom upp við sumarbústað í Úthlíð í Árnessýslu í kvöld. Engan sakaði en gestahús við bústaðinn er illa farið eftir brunann.
Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að upp úr kl. 20 hafi eldur kviknað í grillskýli sem var uppi við gestahús sumarbústaðar á svæðinu.
„Eldurinn náði að læsa sig í gestahúsinu,“ segir Lárus en fólk var í bústaðnum þegar eldurinn varð og hringdi á brunavarnir.
Slökkvilið frá Laugavatni, Reykholti og Selfossi var ræst út á vettvang og tókst að slökkva eldinn fyrir kl. 22 í kvöld.
Lárus segir að mikið tjón sé á grillskýlinu og gestahúsinu en sumarbústaðurinn sjálfur hafi sloppið.
Aftur á móti komst eldur í gróður á svæðinu að sögn varaslökkviliðsstjórans. Tókst slökkviliðsmönnum að ráða niðurlögum hans nokkuð skjótt.