Neytendastofa hefur sektað netverslunina sifverslun.is um 100 þúsund krónur vegna fullyrðinga um að NatPat-plástrar sem fyrirtækið selur geti læknað ýmsa kvilla. Fyrirtækinu er jafnframt bannað að viðhafa slíka villandi viðskiptahætti.
Neytendastofu barst ábending vegna fullyrðinga Sif Verslunar ehf. sem birtust í netverslun félagsins. Þar var því meðal annars haldið fram að NatPat-plástrar gætu aukið svefngæði, minnkað stress, þunglyndi, kvíða og þreytu auk þess að vera fullkomnir fyrir þá sem vantar hjálp við einkenni kvíða, ADHD, einhverfu eða bara róa barn sem hefur of mikla orku.
Í ákvörðun Neytendastofu segir að fyrirtækið hafi ekki fært fullnægjandi sönnun fyrir fullyrðingunum en meðan á meðferð málsins stóð gerði félagið þó breytingar á netversluninni sem fól í sér að einstaka fullyrðingar voru fjarlægðar.
Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni NatPat-plástranna sem væru líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi tæki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið.
Þá taldi Neytendastofa að með birtingu fullyrðinga um virkni NatPat-plástra hafi félagið haldið því ranglega fram að vörurnar gætu læknað sjúkleika eða röskun á líffærastarfsemi.