„Hann var sannur brautryðjandi skáklistarinnar á Íslandi og vakti kornungur athygli fyrir glæsileg tilþrif á skákmótum hér á landi og víða erlendis. Hvert afrekið rak annað þar til hann var útnefndur stórmeistari og komst í hóp áskorenda til heimsmeistaratignar á millisvæðamótinu í Portoroz árið 1958.“
Þetta segir Helgi Ólafsson stórmeistari er hann minnist Friðriks Ólafssonar, skákmeistara og fyrrverandi skrifstofustjóra Alþingis, sem lést 4. apríl síðastliðinn.
Friðrik átti stórbrotinn skákferil að baki. Hann varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst árið 1952. Hann varð alþjóðlegur skákmeistari 1956 og fyrsti íslenski stórmeistarinn 1958. Friðrik var kosinn forseti Alþjóðaskáksambandsins 1978, sem Helgi segir lýsa því hve mikillar virðingar hann naut á alþjóðavettvangi.
Helgi skrifaði skákævisögu Friðriks: Friðrik Ólafsson fyrir nokkrum árum en þar var skákferill hans rakinn. Helgi segir Friðrik hafa verið góða fyrirmynd og lyft skákinni í mikinn virðingarsess hér á landi. Hann segir bestu skákir Friðriks hafa þótt bæði glæsilegar og glæfralegar tefldar.