Rannsókn lokið á förgun Goðafoss og Laxfoss

Eimskip nýtti sér alræmdan millilið til að farga Goðafossi og …
Eimskip nýtti sér alræmdan millilið til að farga Goðafossi og Laxfossi. Ljósmynd/Eimskip

Rann­sókn er lokið á sölu og förg­un tveggja skipa Eim­skips, Goðafoss og Lax­foss. Rann­sókn­in stóð yfir í rúm­lega fjög­ur ár en brátt kem­ur í ljós hvort ákæra verði gef­in út.

Þetta staðfest­ir Ólaf­ur Þór Hauks­son héraðssak­sókn­ari í sam­tali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá. Rann­sókn lauk um árs­lok 2024.

Málið má rekja til árs­ins 2020, þegar Kveik­ur greindi frá að fyr­ir­tækið hefði losað skip­in Lax­foss og Goðafoss í gegn­um fyr­ir­tækið GMS, stórt alþjóðafyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í að kaupa skip og selja þau áfram til niðurrifs. Þannig kaup­ir GMS skip og sel­ur áfram til niðurrifs í Asíu. Um­rædd skip voru end­urunn­in á Indlandi. Var þetta talið vera mögu­legt brot á Basel-samn­ingn­um.

Eim­skip baðst af­sök­un­ar á sín­um tíma en fyr­ir­tækið hélt því jafn­framt fram að það teldi sig hafa farið að lög­um.

Fram­kvæmda­stjór­inn með rétt­ar­stöðu sak­born­ings

Héraðssak­sókn­ari fram­kvæmdi hús­leit hjá Eim­skip í des­em­ber 2021 vegna máls­ins.

Greint var frá því árið 2022 að Hilm­ar Pét­ur Val­g­arðsson, fram­kvæmda­stjóri rekstr­ar­sviðs Eim­skips, nyti rétt­ar­stöðu sak­born­ings.

Málið er nú komið til ákæru­sviðs sem mun ákveða hvort ákæra verði gef­in út í mál­inu. Það er þó óljóst hvenær sú ákvörðun ligg­ur fyr­ir en „það ætti að fara að líða að því,“ seg­ir Ólaf­ur.

Rann­sókn héraðssak­sókn­ara hef­ur staðið yfir síðan 2020 en dróst á lang­inn aðallega vegna þess að embættið þurfti að afla gagna frá öðrum ríkj­um, a.m.k. tveim­ur Evr­ópu­ríkj­um, með rétt­ar­beiðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert