Rannsókn er lokið á sölu og förgun tveggja skipa Eimskips, Goðafoss og Laxfoss. Rannsóknin stóð yfir í rúmlega fjögur ár en brátt kemur í ljós hvort ákæra verði gefin út.
Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá. Rannsókn lauk um árslok 2024.
Málið má rekja til ársins 2020, þegar Kveikur greindi frá að fyrirtækið hefði losað skipin Laxfoss og Goðafoss í gegnum fyrirtækið GMS, stórt alþjóðafyrirtæki sem sérhæfir sig í að kaupa skip og selja þau áfram til niðurrifs. Þannig kaupir GMS skip og selur áfram til niðurrifs í Asíu. Umrædd skip voru endurunnin á Indlandi. Var þetta talið vera mögulegt brot á Basel-samningnum.
Eimskip baðst afsökunar á sínum tíma en fyrirtækið hélt því jafnframt fram að það teldi sig hafa farið að lögum.
Héraðssaksóknari framkvæmdi húsleit hjá Eimskip í desember 2021 vegna málsins.
Greint var frá því árið 2022 að Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips, nyti réttarstöðu sakbornings.
Málið er nú komið til ákærusviðs sem mun ákveða hvort ákæra verði gefin út í málinu. Það er þó óljóst hvenær sú ákvörðun liggur fyrir en „það ætti að fara að líða að því,“ segir Ólafur.
Rannsókn héraðssaksóknara hefur staðið yfir síðan 2020 en dróst á langinn aðallega vegna þess að embættið þurfti að afla gagna frá öðrum ríkjum, a.m.k. tveimur Evrópuríkjum, með réttarbeiðnum.