Einn af helstu trúnaðarmönnum Viðreisnar segir fyrirætlanir ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um að tvöfalda veiðigjöld á útgerðarfyrirtæki í landinu reka fleyg í samstarf Viðreisnar.
Þetta kemur fram í viðtali á vettvangi Spursmála þar sem Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er meðal gesta. Gylfi situr í bæjarstjórn fyrir hönd Í-lista en hann hefur lengi verið flokksbundinn í Viðreisn og gegndi meðal annars starfi aðstoðarmanns Benedikts Jóhannessonar, þáverandi fjármálaráðherra. Benedikt er stofnandi flokksins.
Gylfi viðurkennir að Vestfirðingar séu uggandi yfir fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar og að ef af skattheimtunni verði í óbreyttri mynd muni það hafa neikvæð áhrif á atvinnulíf á Vestfjörðum.
Hann segist ekki trúa því að frumvarpið fari óbreytt í gegn. Á sama tíma minnir hann á að fyrri ríkisstjórn hafi einnig lagt stein í götu atvinnulífs fyrir vestan, meðal annars með aukinni skattheimtu á skemmtiferðaskip en einnig með því að trappa hraðar og meira upp fiskeldisgjöld en áætlanir gerðu upphaflega ráð fyrir.
Ásamt Gylfa er viðmælandi þáttarins Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar. Það embætti vermir hann fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Ljóst er að frumvarpið sem Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt hefur hleypt illu blóði í margan landsbyggðarmanninn og er talið víst að hin aukna gjaldtaka sem yrði samfara samþykkt frumvarpsins í núverandi mynd, myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar á afkomu fiskverkenda hringinn í kringum landið.
Erfitt hefur verið að ná í þingmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Þannig hefur Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, ekki svarað síendurteknum póst- og skilaboðasendingum, auk símtala frá Spursmálum.
Viðtalið við Gylfa og Ragnar má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan: