Guðmundur Árni Stefánsson sækist eftir endurkjöri sem varaformaður Samfylkingarinnar. Hann dró sig af lista í þingkosningum af heilsufarsástæðum en kveðst nú stálhraustur á ný „hundrað prósent til í slaginn“.
„Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar, ef það er vilji flokksmanna,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Ekki er vitað um fleiri frambjóðendur til varaformanns að svo stöddu en á síðasta landsfundi 2022 var Guðmundur sjálfkjörinn þar sem hann var einn í framboði og tók þar við af Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra.
„Við höfum unnið vel saman í fráfarandi stjórn með þeim árangri að flokkurinn jók fylgi sitt og er nú leiðandi í ríkisstjórn,“ segir Guðmundur enn fremur.
Guðmundur, sem nálgast nú sjötugt, er mikill reynslubolti úr Samfylkingunni.
Hann var heilbrigðisráðherra úr röðum Alþýðuflokksins 1993, tók við sem félagsmálaráðherra rúmu ári síðar, en sagði svo af sér eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisfærslur hans.
Hann hélt þó áfram sem þingmaður í áratug til viðbótar og er núna bæjarfulltrúi í Hafnarfirði fyrir Samfylkinguna, en hann var áður bæjarstjóri þar.
Í aðdraganda alþingiskosninga 2024 sóttist Guðmundur eftir oddvitasæti í Suðvesturkjördæmi en dró sig í hlé af heilsufarsástæðum.
Oddvitasætið féll því í skaut Ölmu Möller sem nú er orðin heilbrigðisráðherra.
Spurður út í veikindin segist hann hafa hrist þau af sér.
„Ég hef fullkomlega náð mér af því og er hundrað prósent til í slaginn,“ svarar Guðmundur og kveðst ekki vilja ræða smáatriði þeirra veikinda á vettvangi fjölmiðla.