Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar séu orðnar eins og markmið í sjálfu sér. Fjármálaráðherra hafnar því að verið sé að hækka skatta.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi.
Guðrún hóf mál sitt með því að vekja athygli á því að ríkisstjórnin hygðist afnema samsköttun hjóna og sambýlisfólks milli skattþrepa.
„Ég hef áður bent á að sú breyting bitni helst á heimilum þar sem annað foreldri er tímabundið með lægri tekjur – vegna náms, veikinda, fæðingarorlofs eða barnauppeldis. Heimilin glíma nú þegar við áskoranir: húsnæðiskostnaður er hár, matvælaverð í sögulegum hæðum og vaxtastig hefur verið hátt,“ sagði hún.
Hún benti á að samhliða þessu þyrfti að líta á afleiðingar tollastefnu Bandaríkjanna sem gætu haft keðjuverkandi áhrif á Ísland, þó að tollastefnan beinist að mestu á stór efnahagssvæði.
„Því spyr ég hæstvirtan fjármálaráðherra: Af hverju velur ríkisstjórnin að auka álögur á heimili landsins – einmitt nú – þegar efnahagsleg framtíðarsýn er óviss, alþjóðlegar aðstæður óstöðugar og heimilin þegar undir þrýstingi?“ spurði Guðrún.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurninni og sagði að það væri búið að fara vandlega yfir afleiðingar samsköttunar og afnáms hennar.
„Ég vil vekja athygli þingheims á því að hér á einungis við um nýtingu skattþrepa og ekki nýtingu persónuafsláttar sem helst áfram óbreytt,“ sagði Daði.
Hann sagði rannsóknir skattyfirvalda á því hverjir hafa nýtt sér samsköttun ekki staðfesta það sem Guðrún sagði, heldur að það væri fyrst og fremst fólk í „efsta hluta tekjudreifingarinnar þar sem raunverulega er einhver munur á skattþrepum“.
Guðrún tók þá aftur til máls og sagði það vera grundvallaratriði í ríkisfjármálum að þjóðin gæti treyst því að forsendur stæðust.
„Að þegar skattar eru hækkaðir, eða nýjar álögur kynntar, þá liggi fyrir hvers vegna – og hvert markmiðið er. En við umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar virðist þessi einfalda krafa vera lögð til hliðar.“
Í síðustu viku þurfti að fresta umræðum um fjármálaáætlun þar sem hvorki eru mælanleg markmið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né mælikvarðar fyrir öll málefnasvið fjármálaáætlunar. Þetta eru hins vegar gögn sem hafa á undanförnum árum fylgt með fjármálaáætlun.
Guðrún sagði að áformin um aukna tekjuöflun væru sett fram án þess að sýnt væri fram á hver áhrifin yrðu á heimili landsins.
„Engin gögn fylgja um hvaða hópar bera byrðarnar – aðeins yfirlýsingar um að ríkið þurfi meiri peninga. Það er eins og skattheimta sé orðin markmið í sjálfu sér, ekki tæki til að byggja upp betra samfélag. Þeir sem eiga að greiða meira fá engin svör – ekki um tilganginn, ekki um afleiðingarnar,“ sagði Guðrún.
Guðrún sagði að þessu til viðbótar þá lægju enn ekki fyrir nauðsynlegar greiningar og útreikningar sem gera Alþingi kleift að meta áhrifin.
„Því spyr ég hæstvirtan fjármálaráðherra: Hvernig getur ríkisstjórn, sem kynnti það með hátíðlegum orðum á sínum fyrsta blaðamannafundi að skattar yrðu ekki hækkaðir á almenning, réttlætt að fyrsta verkið sé að gera nákvæmlega það? Almenningur á betra skilið en ríkisstjórn sem segir eitt og gerir hið gagnstæða,“ spurði Guðrún.
Daði Már ítrekaði þá að breytingin hefði einungis áhrif á efsta hluta tekjudreifingarinnar.
„Það er varla hægt að halda því fram að hér sé um álögur á almenning að ræða og vil síðan rifja upp með háttvirtum þingmanni að fyrir liggur bæði fjármálastefna og fjármálaáætlun sem sýnir að hlutfall tekna ríkisins af vergri landsframleiðslu fellur samfellt allt tímabil fjármálaáætlunar. Það eru ekki skattahækkanir,“ sagði Daði.