Stjórnarandstaðan gekk rétt í þessu úr þingsalnum vegna skorts á gögnum í fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin boðar hagræðingu en ekki kemur fram hvernig eigi að hagræða.
Heitar umræður voru um fundarstjórn forseta fyrr í dag vegna þess að hvorki eru mælanleg markmið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né mælikvarðar fyrir öll málefnasvið fjármálaáætlunar.
Þetta eru hins vegar gögn sem hafa á undanförnum árum fylgt með fjármálaáætlun.
Eins og fjallað var um í síðustu viku þá var umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar frestað eftir að þetta kom í ljós en í dag áttu þessar umræður að hefjast aftur, þrátt fyrir að enn vantaði gögnin.
Þegar Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, byrjaði að fara yfir sitt málefnasvið í fjármálaáætlun gengu þingmenn stjórnarandstöðunnar úr þingsal.
„Þingmenn stjórnarandstöðunnar sjá sér ekki fært eða ástæðu til að taka þátt í umræðu þegar þeir hafa engin gögn til að fá heildaryfirsýn yfir fjármálaáætlunina. Við þurfum einhvern veginn að giska á það sem þau [ríkisstjórnin] ætla að gera,“ segir Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Hann bendir á að boðuð sé hagræðing upp á rúmlega hundrað milljarða í fjármálaáætlun.
„En þú getur ekkert séð eftir málefnasviðum hvar þessi hagræðing á að vera,“ segir Vilhjálmur.
Þar sem ekki sé hægt að sjá hvar hagræðingin á að vera þá sé ekki hægt að taka þátt í umræðum og leggja mat á hlutina.
„Nú eru margir verknámsframhaldsskólar að bíða eftir stækkun á húsnæði en samt er samdráttur þarna [í fjármálaáætlun]. Það kemur ekkert fram hvort að fjármunirnir dugi til að mæta aukningu iðnnámsnema, eða stækkun iðnnámsaðstöðu eða hvernig er öruggt að þessi hagræðing nær fram og hvað gerist ef hún næst ekki,“ segir Vilhjálmur.