Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist reikna með því að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í dag yfir tveimur táningsstúlkum sem voru handteknar fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning á Keflavíkurflugvelli.
Stúlkurnar, sem flugu til Íslands frá Þýskalandi, voru handteknar á Keflavíkurflugvelli þann 30. mars fyrir innflutning á 20 þúsund fölsuðum Oxycontin-töflum.
Önnur þeirra er sautján ára að verða átján, og því undir lögaldri, en hin er fædd árið 2005 og verður tvítug á þessu ári. Úlfar segir við mbl.is að báðar séu þær með evrópskt ríkisfang.
„Það er ekki ólíklegt að gæsluvarðhaldið verði framlengt um viku. Þetta mál er í rannsókn og hún er unnin í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. Við þurfum að afla upplýsinga um þessa einstaklinga og hvort þeir eigi sér brotaferil í öðrum löndum en hér á landi,“ segir Úlfar en gæsluvarðhald yfir stúlkunum á að renna út í dag.
Hann segir að búið sé að yfirheyra stúlkurnar en rannsókn málsins sé hvergi nærri lokið.
Úlfar segir að 20 manns séu í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum og þar af séu 15 einstaklingar vegna innflutnings á fíkniefnum í gegnum Keflavíkurflugvöll.
„Þetta flæðir inn í landið og það er alveg ljóst að það þarf að halda uppi öflugu eftirliti á Keflavíkurflugvelli og það þarf að bæta í það eftirlit,“ segir hann.