„Ég held að við séum komin á svona braut þar sem allir eru að tapa, hvort sem það eru Bandaríkin eða hver annar,“ segir Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Markaðir víðs vegar um heim hafa hrunið í kjölfar tollhækkana Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
Í samtali við mbl.is segir Finnbjörn sambandið vera að fylgjast með stöðu mála.
„Maður er svona hálforðlaus yfir því hvert þetta er að fara.“
Hann telur Ísland nú þurfa að fylgjast með nágrannaþjóðum sínum og hvernig þær bregðast við.
„Við verðum að fylgja þeim svolítið eftir. Ég sé enga aðra stöðu í þessu.“
Segir Finnbjörn þó sambandið enn vera að skoða hlutina og ekki komið að neinni niðurstöðu.
„Við erum mjög vakandi um stöðuna.“
„En svo er þetta náttúrulega þvílíkt ólíkindatól, þessi ágæti Bandaríkjaforseti – maður veit ekkert hvað honum dettur í hug næst,“ bætir forsetinn við að lokum.“