Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir samtökin fylgjast vel með stöðu mála og hvetja stjórnvöld til að verja hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Þá sé ekki rétti tímapunkturinn núna til að skattleggja atvinnugreinar með þeim hætti að það skaði samkeppnishæfni íslenskra útflutningsgreina.
Þetta segir Sigríður í samtali við mbl.is er hún er innt eftir viðbrögðum um hrun markaða víðs vegar um heim.
„Það sem að allt atvinnulífið er að velta fyrir sér núna er hvað sé að gerast og hvaða áhrif tollar Bandaríkjanna sem og viðbrögð annarra hagkerfa muni koma til með að hafa á eftirspurn, framboð, hliðrun viðskipta á milli markaða, gengisbreytingar gjaldmiðla og vilja til fjárfestinga svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sigríður.
Hún segir Bandaríkin og Evrópusambandið vera tvö stærstu hagkerfi sem Ísland eigi í viðskiptasambandi við. Því sé nauðsynlegt að fylgjast vel með og afla upplýsinga en samtökin eru t.a.m. með ráðgjafafyrirtæki í Brussel sem upplýsir um komandi aðgerðir Evrópusambandsins (ESB).
Þá hvetja samtökin íslensk stjórnvöld til að sinna hagsmunagæslu Íslands á alþjóðavettvangi.
„Það er alveg ljóst að það er tilefni til að taka þessu alvarlega og hafa áhyggjur.“
Hún segir nú mikla óvissu ríkja og að það skipti miklu máli að fylgjast vel með þeim aðgerðum sem ESB mun grípa til sem búist er við að séu tvíþættar: Annars vegar mótvægisaðgerðir gegn Bandaríkjunum og hins vegar verndarráðstafanir sem gætu haft áhrif á vörusölu Íslands til sambandsins.
Þá skipti miklu máli að Ísland sé innan þeirra verndarráðstafana og að ekki verði teknir upp tollar eða viðskiptahindranir innan innri markaðarins á Evrópska efnahagssvæðinu.
Segir Sigríður það þó hafa verið skýrt í málflutningi Evrópusambandsins að sambandið vilji semja við Bandaríkin.
„Það er auðvitað jákvætt og við vonum auðvitað að það takist,“ segir Sigríður en hún ítrekar þó að nú sé tímabil óvissu.
„Það sem við vitum er að tollar eru skattar. Þeir eru slæmir fyrir fyrirtæki og verri fyrir neytendur. Þeir geta truflað aðfangakeðju og valdið óvissu. Þannig þegar við erum að tala um tollastríð þá þýðir það einfaldlega að störf eru í húfi, verð mun hækka og fyrirtæki þurfa að meta áhrifin af beinum tollum á sín eigin viðskiptasambönd og sína eigin markaði.“
Hún nefnir þó að íslenskt atvinnulíf hafi áður sýnt mikla seiglu er það hefur farið í gegnum óvissutímabil og segir að það sé mikilvægt að muna að til lengri tíma sé Ísland í öfundsverðri stöðu.
Landið hafi nægar auðlindir, bæði mannauð sem og náttúruauðlindir. Einnig sé landið með vel fjármagnað lífeyriskerfi, búi við mikið jafnrétti og mikinn tekju- og eignarjöfnuð.
„Það sem skiptir svo miklu máli núna þegar aðstæðurnar eru með þessum hætti, það er að stjórnvöld standi raunverulega vörð um verðmætasköpun og stöðugleika á landinu,“ segir Sigríður og heldur áfram:
„Þá erum við kannski fyrst og fremst að hugsa að það sé ekki tímapunkturinn núna til þess að gera grundvallarbreytingar á rekstrarumhverfi atvinnugreina án þess að eiga við þær almennilegt samráð eða gera það í sátt við viðkomandi atvinnugreinar. Þetta er ekki tímapunkturinn þar sem við eigum að vera að vinna gegn fyrirsjáanleika og stöðugleika.
Þetta er ekki tímapunkturinn þar sem við eigum að vera að skattleggja greinar með þeim hætti að það skaði samkeppnishæfni íslenskra útflutningsgreina. Núna er tímapunkturinn til að snúa bökum saman við atvinnulífið í hagsmunagæslu fyrir Ísland á alþjóðlegum vettvangi. Þetta er bara lykilatriði.“