Tæplega 18 stiga hiti var á Norðausturlandi í dag og útlit er fyrir að suðlægar áttir haldi þar áfram næstu daga.
„Á morgun verður líka frekjar hlýtt en ekki eins og í dag. Upp við norðurströndina snýst vindurinn í austanátt og þar verður aðeins svalara. Inn til landsins býst ég við alveg 12-13 stigum,“ segir Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir Marcel sumarið þó ekki vera á leiðinni til höfuðborgarsvæðisins.
„Það var nú frekar skýjað í dag en það á að vera frekar þurrt á morgun, blautt á miðvikudag og úrkomulítið á fimmtudag. Þannig að þetta verður ekki eins glæsilegt og var á Norðausturlandi, því miður.“
Segir hann útlit fyrir að það kólni í veðri í lok vikunnar, gera megi ráð fyrir skúrum og möguleiki sé á slyddu.
„Það er aðallega á Suður- og Vesturlandi, en það verður líka kalt á Norðausturlandi, hitastig fer undir frostmark þar líka. Á laugardag verður til dæmis frost um allt land.
Sumarið er ekki á leiðinni.“