Frumkvöðlafræði er kennd í Versló og frá krökkunum úr þeim áfanga spruttu margar frábærar hugmyndir sem nú hefur verið hrint í framkvæmd. Tvær stúlkur og þrír drengir stofnuðu fyrirtækið Hjartaborg og hafa haft í nógu að snúast við að hanna og koma í framleiðslu barnaleikmottu sem fengið hefur nafnið Reykjavíkurmottan, en á henni má finna kennileiti Reykjavíkur. Ólafur Árni Gizurarson, Iðunn Ingvarsdóttir, Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir, Sigurður Karl Knútsson og Gylfi Þór Hassing mættu í Hádegismóa í vikunni til að segja frá verkefninu.
Ungmennin fimm útskrifast í vor af stafrænni viðskiptabraut. Þau segja frumkvöðlaáfangann skemmtilegasta en jafnframt mest krefjandi áfangann sem þau hafi tekið í Versló.
„Í þessum frumkvöðlaáfanga áttum við að búa til og þróa vöru, eða þjónustu, og koma henni á markað. Við stofnuðum saman fyrirtækið Hjartaborg og erum að búa til barnaleikmottur sem endurspegla umhverfi og kennileiti á Íslandi,“ segir Hrafnhildur.
„Innblásturinn er fenginn frá gamalli mottu; bílamottu, sem margir áttu og muna eftir. Við tengdum öll við þá mottu og vildum í raun endurnýja hana í þeim tilgangi að fá krakka til að leika sér meira. Við nýttum þessa gömlu nostalgíu til þess að krakkar gætu lært meira um umhverfið sitt,“ segir Iðunn.
„Við gerðum markaðsrannsókn í byrjun áfangans og það voru yfir 90% sem þekktu bílamottuna og voru til í að sjá nýja endurgerð af henni,“ segir Gylfi.
„Fyrsta mottan okkar er Reykjavíkurmottan með helstu kennileitum úr miðbænum en framtíðarsýn okkar er að fólk geti sérhannað sína eigin mottu. Það er aðalhugmyndin,“ segir Iðunn og nefnir að það verði vonandi hægt síðar að sérpanta slíkar mottur, jafnvel með myndum eða kennileitum úr öðrum bæjum eða hverfum.
Ólafur hannaði teikningarnar sem eru á mottunni og voru þær svo framleiddar í Bandaríkjunum.
„Við erum með vörumessu í Smáralind 5. apríl og þá getur fólk komið og spurt spurninga og fengið að sjá alvöru eintak af mottunni, en það er opið 11-18. Þar verðum við með bás,“ segir Sigurður, en krakkarnir munu þá geta tekið við pöntunum. Einnig er hægt að panta leikmottu á heimasíðunni hjartaborg.com og á samfélagsmiðlum undir nafninu hjarta.borg. Mottan kostar 14.990 krónur.
„Við verðum líka með eintök af mottunni til sölu og ætlum að gefa 25% af ágóðanum til Barnaspítala Hringsins. Okkur langaði að gefa eitthvað af okkur,“ segir Iðunn.
Nánar er rætt við ungmennin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.