Ríkisendurskoðun var vanhæf til að gera úttekt á Íslandspósti vegna starfa sinna fyrir fyrirtækið, að mati Félags atvinnurekenda. FA hefur nú sent erindi þess efnis til innviðaráðuneytisins.
FA segir Ríkisendurskoðun m.a. ekki hafa lagt mat á í skýrslu, sem Alþingi óskaði eftir, hvort Póst- og fjarskiptastofnunin og síðar Byggðastofnun hafi tekist að uppfylla lögbundið hlutverk sitt. FA telur ríkisendurskoðun hafa skautað fram hjá öllum meginatriðum í skýrslubeiðni Alþingis. „Ekki er heldur dregið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar hvort framlög til ÍSP vegna veitingu alþjónustu séu rétt reiknuð,“ segir í erindi FA.
Telur FA niðurstöðurnar settar fram í þeim tilgangi að villa um fyrir Alþingi.
„FA hefur bent á vanhæfi Ríkisendurskoðunar í þessum efnum, en stofnunin veitti Íslandspósti ráðgjöf við að stilla upp tölum með þeim hætti að sem hæst framlög fengjust úr ríkissjóði.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.