Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nýverið Kristján Markús Sívarsson í tveggja ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart konu. Hann var enn fremur dæmdur til að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur.
Héraðsdómur segir að árásin hafi verið gróf, ásetningur hans einbeittur og hann hafi valdið konunni mikilli vanlíðan.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 26. mars en var birtur í gær, að héraðssaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur Kristjáni 30. janúar.
Í henni segir að hann sé ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa frá byrjun nóvember til 10. nóvember 2024, utan við og á dvalarstað hans í Hafnarfirði, veist með ofbeldi að konu.
Fram kemur að hann hafi slegið hana víðsvegar í líkama og höfuð m.a. með hleðslusnúru, hamri, járnröri og tréspýtu, slegið hana í framanvert andlitið með kveikjara, lagt logandi sígarettur að hálsi hennar, tekið með höndum um háls hennar og þrengt að, stungið hana í líkamann með sprautunálum, skorið fótleggi hennar með hníf, stigið og traðkað á báðum fótleggjum hennar, sparkað víðsvegar í líkama hennar, hrækt framan í hana og skvett vatni á hana.
Allt framangreint með þeim afleiðingum að hún hlaut margvíslega áverka, m.a. á tönnum, hlaut sár, skrámur og mar. Meðal annars skurð á framhandlegg og læri og opið sár á ökkla.
Þá var Kristján ákærður fyrir vörslur fíkniefna og brot gegn vopnalögum, með því að hafa sunnudaginn 10. nóvember 2024, á heimili sínu í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 1,22 grömm af amfetamíni, 7,32 gr. af tóbaksblönduðu kannabis og fimm haglaskot og .45 kalíbera patrónu sem lögregla lagði hald á.
Fram kemur í dómnum að konan hafi farið fram á að Kristján myndi greiða henni sex milljónir kr. í miskabætur.
Við aðalmeðferð málsins fór Kristján fram á að hann yrði sýknaður af fyrsta kafla ákærunnar en til vara að honum yrði gerð vægasta refsing er lög leyfðu og að dæmd refsing yrði skilorðsbundin.
Í dómnum eru málsatvik rakin. Þar segir að rannsókn málsins hafi hafist 10. nóvember þegar haft var samband við lögreglu frá slysadeild og tilkynnt um að konan væri þar mikið slösuð sökum líkamsmeiðinga.
Fram kemur í málsgögnum að hún hafi komið á slysadeild kl. 12:56 þennan dag. Lögregla fór á slysadeild og ræddi við konuna sem hafði þá sagt félagsráðgjafa að Kristján hefði veitt henni áverkana. Sjá mátti að konan var með gríðarlega mikla áverka víðs vegar um líkamann og virtist m.a. vera með sár á líkama eins og hún hefði verið lamin með hamri, að sögn lýtalæknis sem skoðaði áverka hennar og lá þá fyrir að hún var a.m.k. með eitt brotið rifbein.
Rætt var aftur við konuna síðar sama dag og þá kom fram hjá henni að Kristján hefði beitt hana ofbeldi í töluverðan tíma og m.a. notað hleðslutæki, járnrör og hníf.
Kristján var handtekinn á heimili sínu sama dag grunaður um líkamsárás með vopni. Húsleit var líka framkvæmd heima hjá honum.
„Samkvæmt skýrslu lögreglu um leitina, sem innihélt ljósmyndir af vettvangi, var íbúðin verulega ósnyrtileg og áberandi ummerki um sprautuneyslu um alla íbúð. Fannst hvítt efni í sprautu á stofuborði og meint kannabis og þrjú haglaskot á borði við útidyrahurð og tvö haglaskot í skúffu í eldhúsi. Þá fannst 45 kalíbera patróna (skothylki úr byssu) á gólfi við útidyrahurð. Einnig var haldlagt svart og brúnt plaströr með trékubb á endanum, eins konar heimatilbúið barefli sem fannst í forstofu, trjágrein sem fannst í forstofu, tréspýta sem fannst á miðju forstofugólfi, stutt járn eins og úr fatahengi mögulega með blóði á sem fannst í fötu í stofu og hleðslutæki með hvítu teipi sem fannst í sófa í stofu,“ segir í dómi héraðsdóms.
Í dómi héraðsdóms segir að Kristján hafi margsinnis áður gerst brotlegur við refsilög frá árinu 1998. Hefur hann m.a. sjö sinnum verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot, einu sinni fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga, tvisvar fyrir brot gegn vopnalögum og ítrekað fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Hann var seinast með dómi héraðsdóms í fyrra dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Héraðsdómur segir að við ákvörðun refsingar hafi verið horft til þess að Kristján hafi ítrekað gerst sekur um ofbeldisbrot
Tekið er fram að líkamsárás Kristjáns hafi verið gróf, ásetningur hans einbeittur og hann hafi valdið konunni mikilli vanlíðan.
„Með háttsemi sinni braut ákærði gróflega gegn brotaþola og notfærði sér þá erfiðu stöðu sem hún var í vegna fíknisjúkdóms. Á ákærði sér engar málsbætur,“ segir í dómi héraðsdóms.
Auk þess að vera dæmdur til greiðslu miskabóta, sem fyrr segir, þá var Kristján dæmdur til að greiða fimm milljónir króna í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 2,5 milljóna þóknun skipaðs réttargæslumanns konunnar og 507.829 krónur í annan sakarkostnað.
Þá voru fíkniefni og aðrir munir sem lögreglan lagði hald á við húsleit gerðir upptækir.