„Vigdís Finnbogadóttir var alveg einstakur forseti og mikil fyrirmynd fyrir mig,“ segir Halla Tómasdóttir forseti Íslands í samtali við mbl.is við upphaf tveggja daga ríkisheimsóknar til Noregs sem hefst á morgun, þriðjudag, og Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning verða í gestgjafahlutverkinu við.
Með Höllu í för verður Björn Skúlason eiginmaður hennar og mun leið forsetahjónanna liggja hvort tveggja um höfuðborgina Ósló sem gamla erkibiskupssetrið Niðarós er nú heitir Þrándheimur.
Í samtalinu við mbl.is í tilefni heimsóknarinnar segir Halla enn fremur að kvenforseti skipti þjóðina máli og hún óttist ekki sérstaklega að verða sífellt borin saman við Vigdísi. „Við höfum verið með sjö forseta sem allir hafa verið mjög ólíkir og allir sett sitt mark á þetta embætti og verið hann eða hún sjálf.
Þannig að ég ætla ekkert að reyna að vera Vigdís, ég ber svo mikla virðingu fyrir Vigdísi sem átti sín sextán ár og er sá forseti sem ég horfði mest til og gaf mér mest,“ segir sjöundi forseti lýðveldisins þar sem þau blaðamaður sitja á bókasafni hins sögufræga Grand hótels við Karls Jóhannsgötu í Ósló þar sem rithöfundurinn Henrik Ibsen var sem grár köttur.
Viðtalið við Höllu – þar sem forsetinn ræðir grafalvarleg málefni á borð við öryggismál í Evrópu en slær einnig á léttari strengi en mörgum þjóðhöfðingjanum hefur auðnast – birtist í heild sinni í Morgunblaðinu á miðvikudaginn, en þess má geta að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, taka einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og viðskiptasendinefnd.
Frá því greinir í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands að ríkisheimsóknir séu æðsta form diplómatískra samskipta milli ríkja og markmið þessarar heimsóknar Höllu og föruneytis hennar sé að styrkja enn frekar söguleg tengsl Íslands og Noregs og vinna að sameiginlegum hagsmunum þjóðanna, meðal annars á sviði varnarmála, menningar og bættrar geðheilsu.