Óvenjumikið er um fundahöld íslenskra alþingismanna í útlöndum þessa vikuna. Alls sækja 16 þingmenn fundi erlendis eða 25% þingsins. Að meðtöldum aðstoðarmönum eru 20 manns í útlöndum á vegum Alþingis þessa vikuna.
Flestir verða í Brussel í Belgíu dagana 7. og 8. apríl eða níu talsins. Þeir tilheyra sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.
Þingmennirnir eru: Dagbjört Hákonardóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Grímur Grímsson, Ingibjörg Isaksen, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Pawel Bartoszek, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Með í för eru starfsmenn Alþingis, Eggert Ólafsson og Stígur Stefánsson.
Vorþing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) fer fram dagana 3.-10. apríl í Taskent í Úsbekistan. Þátttakendur eru alþingismennirnir Hildur Sverrisdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Víðir Reynisson. Með í för er Arna Gerður Bang, starfsmaður skrifstofu Alþingis.
Þingfundur Evrópuráðsþingsins fer fram dagana 7.-11. apríl í Strassborg í Frakklandi. Þátttakendur eru alþingismennirnir Ragnar Þór Ingólfsson, Sigríður Á. Andersen og Sigurður Helgi Pálmason. Með í för er Auður Örlygsdóttir, starfsmaður skrifstofu Alþingis.
Loks sækir Dagur B. Eggertsson alþingismaður sameiginlegan fund stjórnmálanefndar og vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins dagana 7.-11. apríl í Belgrad og Sarajevó. Dagur B. er einn á ferð.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.