Guðný Birna Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og forseti bæjarstjórnar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti ritara Samfylkingarinnar á komandi landsfundi.
Frá þessu greinir hún á Facebook.
Hún segir mikilvægt að landsbyggðin sé með fulltrúa í stjórn flokksins, sérstaklega í ljósi þess að á næsta ári fara fram sveitarstjórnarkosningar.
„Þetta er stóra verkefnið okkar fram undan en auk þess þurfum við að halda sterkri forystu og stækka flokkinn okkar með fólki sem trúir á okkar góðu verk,“ skrifar hún.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar en landsfundurinn fer fram í Stúdíó Fossaleyni í Grafarvogi dagana 11. og 12. apríl.
Þá hefur Guðmundur Árni Stefánsson gefið kost á sér til áframhaldandi setu sem varaformaður Samfylkingarinnar.
Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var kjörin ritari flokksins á síðasta landsfundi en missti embættið þegar hún varð þingmaður. Samkvæmt lögum flokksins þá skulu ritari flokksins og formaður framkvæmdastjórnar ekki vera þingmenn.
Guðný hefur verið bæjarfulltrúi fyrir Samfylkinguna í Reykjanesbæ síðan 2014 og verið oddviti síðan 2024.
„Ég vil af öllu hjarta að okkur vegni vel í því mikilvæga verki sem við stöndum frammi fyrir; að leiða stjórn Íslands, borgarinnar og fullt af frábærum sveitarfélögum um land allt. Nú er tækifærið okkar að verða enn stærri og öflugri og ég væri mjög þakklát fyrir stuðning ykkar í embætti ritara. Sjáumst á landsfundi,“ skrifar Guðný á Facebook.