Heildarkostnaður við störf hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar nam 7.274.520 krónum. Langstærsti hluti þessa kostnaðar fór í launagreiðslur til nefndarmanna hagræðingarhópsins.
Þetta kemur fram í svari Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Starfshópurinn var skipaður af Kristrúnu til að fara yfir tillögur frá almenningi um hvernig mætti hagræða í rekstri hins opinbera. Hátt í fjögur þúsund hagræðingartillögur bárust frá almenningi og var fjögurra manna starfshópur skipaður til að vinna úr tillögunum.
Launakostnaður nefndarmannanna nam 6,9 milljónum króna, ferðakostnaður 200 þúsund krónur og aðgengi að gervigreind til að vinna úr tillögunum nam 97 þúsund krónum.
Þá voru keyptar veitingar fyrir hópinn upp á 77.520 krónur.