Halla Tómasdóttir forseti Íslands flutti borðræðu sína á hátíðarkvöldverði, sem Haraldur V. Noregskonungur bauð til í Óslóarhöll í kvöld, forseta til heiðurs, á íslensku. Upphafsorðin og lokaorðin flutti hún þó á norsku.
Hún fór um víðan völl í ræðu sinni, rakti tengsl Íslands og Noregs, fór yfir grunngildi þjóðanna en varaði á sama tíma við vígbúnaði í heiminum.
Það væri áskorun sem Norðurlöndin hefðu alla burði til að mæta.
Hún byrjaði ræðu sína á því að segja nokkur orð á norsku til að lýsa þakklæti sínu fyrir hlýlegt og rausnarlegt boð konungsins.
„En með góðfúslegu leyfi konungs og drottningar vil ég gjarnan halda ræðu minni áfram á íslensku. Íslenska stendur næst þeim tungum sem talaðar voru á Norðurlöndum til forna. Á Íslendingum hvílir því sú ábyrgð að viðhalda íslenskunni, ekki aðeins sem móðurmáli með öllu sem því fylgir fyrir þjóð, heldur einnig til að gæta sameiginlegrar arfleifðar norrænna þjóða,“ sagði Halla.
Halla rakti tengsl Íslands og Noregs og sagði Norðmenn vera eins og eldra systkini sem er traust og góð fyrirmynd.
„Mér koma í hug kostir eins og sjálfsagi, ráðdeild, skipulag og gleði sem prýða Norðmenn í ríkum mæli og fleiri mættu tileinka sér,“ sagði hún og minntist á það að á lokaári í háskóla í Bandaríkjunum hafi hún leigt íbúð með tveimur norskum strákum sem hafi verið lifandi dæmi um þessa mannkosti.
„Því miður get ég ekki sagt að sami agi, skipulag og ráðdeild hafi einkennt mig á þessum tíma en um gleðina vorum við ávallt sammála. Þótt við séum að sumu leyti ólík, þá eru tengsl norsku og íslensku þjóðanna einstök – við erum runnin af sömu rót og saga okkar samofin,“ sagði Halla.
Hún sagði sterku tengsl Noregs og Íslands kristallast í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, þar sem hann rekur sögu Noregskonunga frá örófi alda fram á 12. öld.
Halla nefndi að þótt að vinátta sé eitt það dýrmætasta sem við eigum, stæðum við nú frammi fyrir auknum einmanaleika og rofi á tengslum einstaklinga við samfélag sitt.
„Þetta á ekki síst við um ungmenni. Þessa þróun má að einhverju leyti rekja til tæknibreytinga og mikillar notkunar á snjallsímum og samfélagsmiðlum, sem í stóra samhenginu tengja okkur saman, en hafa um leið leitt til vaxandi vanlíðunar, ofbeldis og sundrungar. Við þurfum öll að hjálpast að við að snúa þessari þróun við,“ sagði Halla og minntist á hreyfinguna sem hún hefur sett af stað, riddara kærleikans.
Hún sagði að forsenda friðar væri að kunna að hlusta á ólík sjónarmið og finna leiðir til að jafna ágreining. Á því sviði hafi Norðmenn gegnt forystuhlutverki, eins og til dæmis með árlegri afhendingu friðarverðlauna Nóbels í Ósló.
Halla varaði þó við því að veröldin væri að vígbúast sem aldrei fyrr. Upplýsingaóreiða væri að kljúfa fólk í fylkingar og að fram undan væri barátta fyrir réttlæti og friði á öllum vígstöðvum, innan þekkingar heimsins, stjórnmálanna og á sviði lista og menningar.
„Norðurlönd hafa alla burði til að mæta þessum áskorunum bæði í orði og á borði. Nú ríður á að hvika ekki frá þeim gildum sem liggja til grundvallar samfélagsþróun Norðurlanda á undanförnum áratugum. Við höfum sýnt að hægt er að byggja upp réttlátt og friðsælt samfélag þar sem jafnrétti og virðing fyrir fólki og náttúru eru höfð að leiðarljósi,“ sagði Halla.
Hún sagði að áhersla á mannréttindi, lýðræði, samfélagslega ábyrgð, menntun og þekkingu væru grunnstoðir samfélaga okkar.
„Norræna módelið gengur upp, við setjum fordæmi sem vert er að fara eftir. Við höfum náð frábærum árangri í velsæld og vermum þar efstu sæti heims. Með því að sameina raddir okkar og krafta enn betur getum við aukið áhrifamátt Norðurlanda til góðs á tvísýnum tímum,“ sagði hún.
Halla flutti lokaorðin sín á norsku en þar sagði hún:
„Framtíðin er björt ef maður horfir til hennar með bjartsýni. Það er ekki auðvelt verkefni en eftir allt sem við höfum gengið í gegnum fram til þessa, veit ég að við klárum það verkefni líka vel. Á þeim nótum bið ég gesti að lyfta glösum til heiðurs hans hátign Haraldi fimmta Noregskonungi, Sonju drottningu og norsku þjóðinni. Við þökkum fyrir tólf hundruð ára trausta vináttu, megi hún vara alla tíð!“