„Það er verið að setja nýja hnjá- og mjaðmaliði í Kaffivagninn, eins og gamla fólkið á Íslandi í dag,“ segir Axel Óskarsson, veitingamaður í Kaffivagninum á Grandagarði, í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að verið sé að taka eldhúsið í gegn og nútímavæða svo fólki sé bjóðandi að vinna á Kaffivagninum. Einnig er verið að laga veitingasalinn, en skemmdir hafi komið þar í ljós. Verkið sé unnið í góðu samstarfi við eigendur húsnæðisins.
„Við erum ekki að umbreyta neinu, við höldum í gamla Kaffivagninn eins og hann var. Hann mun hafa sinn gamla sjarma og allir réttirnir verða á sínum stað eins og smurbrauðið. Við bætum líka við flottum brönsmatseðli,“ segir Axel, en staðurinn verður opnaður á nýjan leik í byrjun maí nk.