Kvikan flæðir mun hraðar nú en eftir síðustu gos

„Flæðið er miklu hraðara en eftir síðustu gos og er …
„Flæðið er miklu hraðara en eftir síðustu gos og er sambærilegt því sem var í byrjun árs 2024,“ segir Benedikt. mbl.is/Hákon Pálsson

Landris und­ir Svartsengi er miklu hraðara nú en eft­ir síðustu gos á Sund­hnúkagígaröðinni. Er hraðinn svipaður og fyr­ir fyrsta gosið í des­em­ber 2023 og í byrj­un árs 2024.

„Við erum að sjá mjög mik­inn hraða núna og við verðum að sjá hvernig það þró­ast, hvort það hæg­ir á sér. Það hef­ur alltaf gert það, byrjað mjög hratt og svo hæg­ir það á sér,“ seg­ir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands.

Hraðinn nú er þó tölu­vert meiri en áður.

Bene­dikt bend­ir á að síðasti at­b­urður hafi verið sér­lega stór, þó gosið hafi varað stutt, og þá geti hraðamun­ur­inn verið meiri.

Síðasta gos var það átt­unda í röðinni síðan gos­hrin­an hófst.

Graf/​Veður­stof­an

Skyn­sam­leg­ast að bíða með túlk­an­ir

„Flæðið er miklu hraðara en eft­ir síðustu gos og er sam­bæri­legt því sem var í byrj­un árs 2024,“ seg­ir Bene­dikt.

Á þess­um hraða taki ekki lang­an tíma fyr­ir kviku­hólfið að fyll­ast.

„Ef þetta held­ur áfram á þess­um hraða þá er þetta bara ör­stutt tíma­bil þar sem það nær að fyll­ast, en ef það hæg­ir á þessu þá get­ur það verið miklu lengra.“

Óviss­an sé hins veg­ar það mik­il að lang­skyn­sam­leg­ast sé að bíða og sjá hver þró­un­in verður næstu viku eða vik­ur, áður en farið er að túlka hvað þetta þýðir og teikna upp sviðsmynd­ir.

Graf/​Veður­stof­an

Ólík­legt að hraðinn hald­ist

„Ef þetta held­ur áfram með þess­um hraða þá er stutt í næsta gos,“ seg­ir Bene­dikt en tek­ur fram að ólík­legt sé að það ger­ist. Meiri lík­ur séu á að það hægi á flæðinu.

„Það er af­skap­lega ólík­legt að þetta haldi áfram á þess­um hraða, þannig hef­ur það ekki hagað sér,“ seg­ir hann og held­ur áfram:

„Það sem er lík­leg­ast að sé í gangi, er ein­fald­lega að þegar þrýst­ing­ur­inn lækk­ar, þá er minna viðnám við inn­flæðinu. Þess vegna færðu hraðara inn­flæði, svo fyll­ist sam­an á tank­inn, þá verður erfiðara að dæla inn í hann. Þá er meiri þrýst­ing­ur og jarðskorp­an fer að halda bet­ur við. Það skýr­ir af hverju það byrj­ar hratt og af hverju það hæg­ir á sér.“

Graf/​Veður­stof­an
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert