Ólöf Björnsdóttir, fyrrverandi tengdamóðir barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, kveðst í samtali við Morgunblaðið misboðið með því að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi í ræðupúlti Alþingis sakað hana um eiginlega lygi.
Hún vill að forsætisráðherra biðjist afsökunar vegna þessa, helst úr ræðupúlti Alþingis þar sem orð hennar féllu upphaflega.
Ólöf stendur föst á því að hún hafi farið fram á trúnað í símtali um erindi sitt til forsætisráðuneytisins, sem varðaði Ásthildi Lóu þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, og að trúnaði hafi verið heitið um málið.
Kristrún svaraði óundirbúinni fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins á Alþingi 24. mars sl. um viðtöku forsætisráðuneytisins á erindi Ólafar Björnsdóttur.
„Það er einfaldlega þannig að það kom engin ósk um trúnað inn í forsætisráðuneytið hvað varðar þetta mál,“ sagði Kristrún í pontu.
Í tímalínu sem forsætisráðuneytið sendi fjölmiðlum 23. mars sl. er því aðeins vísað á bug að Ólöfu hafi verið heitinn trúnaður.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.