Nýr kafli hafinn á Reykjanesskaga

Haraldur Sigurðsson, prófessor emeritus í eldfjallafræði.
Haraldur Sigurðsson, prófessor emeritus í eldfjallafræði. Samsett mynd/mbl.is/RAX/Eggert

Har­ald­ur Sig­urðsson, eld­fjalla­fræðing­ur og pró­fess­or emer­it­us hjá Há­skól­an­um í Rhode Is­land, seg­ir að kafl­inn sem hófst 1. apríl og nú stend­ur yfir í Sund­hnúka­kerf­inu, muni lík­lega ein­kenn­ast af öðru kviku­streymi.

Í pistli á sam­fé­lags­miðlum rýn­ir Har­ald­ur í þá þrjá kafla sem hann tel­ur ein­kenna at­b­urði í kerf­inu til þessa með nýja grein Michelle Parks og tutt­ugu annarra til hliðsjón­ar.

Kafa þurfi miklu dýpra

Grein­ina seg­ir Har­ald­ur mjög góða og gagn­lega til að fá yf­ir­lit yfir virkni í Sund­hnúka­kerf­inu en að túlk­un­in risti ekki djúpt – fari ekki niður fyr­ir 4 kíló­metra dýpi.

Í pistl­in­um eru frek­ari bolla­legg­ing­ar Har­ald­ar um af­lög­un jarðskorp­unn­ar og kviku­hreyf­ing­ar.

Seg­ir hann að kafa þurfi miklu dýpra niður í skorp­una og í möttul­inn und­ir til að skilja at­b­urðina.

Jarðeðlis­fræðin hafi sýnt að kvikuþróin á um 4 kíló­metra dýpi und­ir Svartsengi sé kjarni máls­ins og til að átta okk­ur bet­ur á því hvað sé að ger­ast í neðri hluta jarðskorp­unn­ar og í möttl­in­um und­ir Reykja­nesi þá sé þörf á að beita skjálfta­mæl­ing­um frá skips­hlið um­hverf­is Reykja­nes.

Minnk­andi kvikurennsli grund­vall­arþátt­ur

Har­ald­ur seg­ir kafl­ana þrjá sem ein­kenna at­b­urði í Sund­hnúka­kerf­inu vera:

1) Frá nóv­em­ber 2023 til apríl 2024 þegar sex kviku­hlaup og gos urðu með frem­ur stuttu milli­bili og minnk­andi kvikurennsli, með stöðugt minnk­andi rennslis­hraða inn í kvikuþróna frá 7,6 rúm­metr­um til 4 rúm­metra á sek­úndu.

„Þetta jafna trend gaf til­efni til spár okk­ar Gríms Björns­son­ar um gos­lok sum­ar eða haust 2024. En þá breytti bikkj­an um gang og spá­in gekk ekki upp!“ skrif­ar Har­ald­ur.

2) Frá apríl 2024 til mars 2025. Tíma­bil sem ein­kennd­ist af löng­um u.þ.b. 3 mánaða löng­um gos­hlé­um með stöðugt lækk­andi rennslis­hraða inn í kvikuþróna und­ir Svartsengi á 4 kíló­metra dýpi, frá 4 rúm­metr­um og niður í 2,5 rúm­metra á sek­úndu.

3) Tíma­bilið sem hófst 1. apríl 2025 og stend­ur nú yfir, sem byrjaði með mikl­um jarðskorpu­hreyf­ing­um og gliðnun og mun lík­lega ein­kenn­ast af öðru kviku­streymi.

Seg­ir Har­ald­ur ljóst að grund­vall­arþátt­ur­inn í öll­um þess­um at­b­urðum sé minnk­andi kvikurennsli eða rennslis­hraði inn í kvikuþróna und­ir Svartsengi á 4 kíló­metra dýpi.

Streymi minnkað um tvo þriðju

„Þetta mark­ar streymi af kviku frá möttli og upp í jarðskorp­una. Það hef­ur minnkað frá 7,6 í upp­hafi í nóv­em­ber 2023, niður í um 2,5 rúm­metra á sek­úndu í dag.

Hvað stjórn­ar breyt­ing­um á streymi kvik­unn­ar? Fyrst og fremst er það mynd­un kviku í möttl­in­um og síðan streymi kvik­unn­ar upp í kvikuþróna á um 4 kíló­metra dýpi.

Sam­kvæmt InS­AR-mæl­ing­um er kvikuþróin flöt keila, með topp rétt sunn­an við Bláa Lónið og vest­an Þor­bjarn­ar. Hún gæti verið um það bil 10 kíló­metr­ar í þver­mál.

Lóðrétt hreyf­ing eða ris skorp­unn­ar yfir topp keil­unn­ar er oft um 40 sentí­metr­ar.“

Gos og hraun­rennsli ekki aðal­málið

Har­ald­ur velt­ir upp hvað taki við á þriðja tíma­bili virkn­inn­ar í Sund­hnúka­kerf­inu. Seg­ir hann síðustu at­b­urði hafa fyrst og fremst verið stórt tekt­on­ískt skref, sem sé senni­lega tengt mik­illi fleka­hreyf­ingu og þá gliðnun Reykja­nesskaga.

„Mun það auka kvikurennsli upp úr möttl­in­um? Strax og síðasta gosi lauk, þá byrjaði land að rísa fyr­ir ofan kvikuþróna eins og í fyrri kviku­hlaup­um, og ef til vill hraðar en áður.

Ef til vill hef­ur gliðnun­in og skjálfta­virkn­in hinn 1. apríl gert greiðari leið fyr­ir kviku upp úr möttl­in­um og inn í kvikuþróna und­ir Svartsengi? Við verðum mest vör við gos­in og hraun­rennslið, en í raun er það ekki aðal­málið. Við þurf­um að kafa miklu dýpra niður í skorp­una og í möttul­inn und­ir til að skilja þessa at­b­urði,“ skrif­ar Har­ald­ur.

Reyn­ir að fjár­magna leiðang­ur

Pró­fess­or­inn seg­ir jarðeðlis­fræðina hafa sýnt okk­ur að kvikuþróin á um 4 kíló­metra dýpi und­ir Svartsengi sé kjarni máls­ins og til þess að átta okk­ur bet­ur á því hvað sé að ger­ast í neðri hluta jarðskorp­unn­ar og í möttl­in­um und­ir Reykja­nesi þá sé þörf á að beita skjálfta­mæl­ing­um sem gerðar yrðu frá skips­hlið um­hverf­is Reykja­nes.

Hann seg­ir sér­út­bú­in rann­sókna­skip þá senda frá sér mjög öfl­ug­ar bylgj­ur sem streyma í gegn­um jarðskorpu og mött­ul und­ir Reykja­nes­inu, sem gegnum­lýsa svæðið niður á meira dýpi í möttl­in­um.

„Fé­lagi minn, pró­fess­or Yang Shen við Há­skól­ann í Rhode Is­land, er nú að reyna að fjár­magna slík­an leiðang­ur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka