Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og prófessor emeritus hjá Háskólanum í Rhode Island, segir að kaflinn sem hófst 1. apríl og nú stendur yfir í Sundhnúkakerfinu, muni líklega einkennast af öðru kvikustreymi.
Í pistli á samfélagsmiðlum rýnir Haraldur í þá þrjá kafla sem hann telur einkenna atburði í kerfinu til þessa með nýja grein Michelle Parks og tuttugu annarra til hliðsjónar.
Greinina segir Haraldur mjög góða og gagnlega til að fá yfirlit yfir virkni í Sundhnúkakerfinu en að túlkunin risti ekki djúpt – fari ekki niður fyrir 4 kílómetra dýpi.
Í pistlinum eru frekari bollaleggingar Haraldar um aflögun jarðskorpunnar og kvikuhreyfingar.
Segir hann að kafa þurfi miklu dýpra niður í skorpuna og í möttulinn undir til að skilja atburðina.
Jarðeðlisfræðin hafi sýnt að kvikuþróin á um 4 kílómetra dýpi undir Svartsengi sé kjarni málsins og til að átta okkur betur á því hvað sé að gerast í neðri hluta jarðskorpunnar og í möttlinum undir Reykjanesi þá sé þörf á að beita skjálftamælingum frá skipshlið umhverfis Reykjanes.
Haraldur segir kaflana þrjá sem einkenna atburði í Sundhnúkakerfinu vera:
1) Frá nóvember 2023 til apríl 2024 þegar sex kvikuhlaup og gos urðu með fremur stuttu millibili og minnkandi kvikurennsli, með stöðugt minnkandi rennslishraða inn í kvikuþróna frá 7,6 rúmmetrum til 4 rúmmetra á sekúndu.
„Þetta jafna trend gaf tilefni til spár okkar Gríms Björnssonar um goslok sumar eða haust 2024. En þá breytti bikkjan um gang og spáin gekk ekki upp!“ skrifar Haraldur.
2) Frá apríl 2024 til mars 2025. Tímabil sem einkenndist af löngum u.þ.b. 3 mánaða löngum goshléum með stöðugt lækkandi rennslishraða inn í kvikuþróna undir Svartsengi á 4 kílómetra dýpi, frá 4 rúmmetrum og niður í 2,5 rúmmetra á sekúndu.
3) Tímabilið sem hófst 1. apríl 2025 og stendur nú yfir, sem byrjaði með miklum jarðskorpuhreyfingum og gliðnun og mun líklega einkennast af öðru kvikustreymi.
Segir Haraldur ljóst að grundvallarþátturinn í öllum þessum atburðum sé minnkandi kvikurennsli eða rennslishraði inn í kvikuþróna undir Svartsengi á 4 kílómetra dýpi.
„Þetta markar streymi af kviku frá möttli og upp í jarðskorpuna. Það hefur minnkað frá 7,6 í upphafi í nóvember 2023, niður í um 2,5 rúmmetra á sekúndu í dag.
Hvað stjórnar breytingum á streymi kvikunnar? Fyrst og fremst er það myndun kviku í möttlinum og síðan streymi kvikunnar upp í kvikuþróna á um 4 kílómetra dýpi.
Samkvæmt InSAR-mælingum er kvikuþróin flöt keila, með topp rétt sunnan við Bláa Lónið og vestan Þorbjarnar. Hún gæti verið um það bil 10 kílómetrar í þvermál.
Lóðrétt hreyfing eða ris skorpunnar yfir topp keilunnar er oft um 40 sentímetrar.“
Haraldur veltir upp hvað taki við á þriðja tímabili virkninnar í Sundhnúkakerfinu. Segir hann síðustu atburði hafa fyrst og fremst verið stórt tektonískt skref, sem sé sennilega tengt mikilli flekahreyfingu og þá gliðnun Reykjanesskaga.
„Mun það auka kvikurennsli upp úr möttlinum? Strax og síðasta gosi lauk, þá byrjaði land að rísa fyrir ofan kvikuþróna eins og í fyrri kvikuhlaupum, og ef til vill hraðar en áður.
Ef til vill hefur gliðnunin og skjálftavirknin hinn 1. apríl gert greiðari leið fyrir kviku upp úr möttlinum og inn í kvikuþróna undir Svartsengi? Við verðum mest vör við gosin og hraunrennslið, en í raun er það ekki aðalmálið. Við þurfum að kafa miklu dýpra niður í skorpuna og í möttulinn undir til að skilja þessa atburði,“ skrifar Haraldur.
Prófessorinn segir jarðeðlisfræðina hafa sýnt okkur að kvikuþróin á um 4 kílómetra dýpi undir Svartsengi sé kjarni málsins og til þess að átta okkur betur á því hvað sé að gerast í neðri hluta jarðskorpunnar og í möttlinum undir Reykjanesi þá sé þörf á að beita skjálftamælingum sem gerðar yrðu frá skipshlið umhverfis Reykjanes.
Hann segir sérútbúin rannsóknaskip þá senda frá sér mjög öflugar bylgjur sem streyma í gegnum jarðskorpu og möttul undir Reykjanesinu, sem gegnumlýsa svæðið niður á meira dýpi í möttlinum.
„Félagi minn, prófessor Yang Shen við Háskólann í Rhode Island, er nú að reyna að fjármagna slíkan leiðangur.“