Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar telur ómálefnalegt að í umræðunni um þéttingu Breiðholts sé græna vöruskemman við Álfabakka notuð sem „skapalón“ og „mælikvarði“.
Undanfarinn áratug hafi tíu þúsund íbúðir verið byggðar í Reykjavík.
„Mér finnst þetta líka aðeins svona vera angi af þessari neikvæðu umræðu. Að horfa eingöngu á það sem að ekki tókst vel, þar sem voru gerð mistök, í stað þess að horfa á alla þessa möguleika sem eru þarna.“
Hjálmar nefnir sérstaklega í því samhengi fyrirhugaða uppbyggingu í Norður-Mjódd.
Þetta kemur fram í máli hans á fundi borgarstjórnar þar sem þétting í Breiðholti og Grafarvogi er til umræðu.
Helgi Áss Grétarsson og Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, beina máli sínu að græna gímaldinu svokallaða, vöruskemmunni sem skyggir á íbúðir sem standa henni við hlið.
Helgi Áss segir vöruskemmuna hafa orðið til þess að mikill áhugi hafi vaknað á skipulagsmálum í Breiðholti. Marta segir meirihlutann í borginni haldna ofurþéttingaráráttu.
Hjálmar sakar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að smætta málflutninginn um þéttingu byggðar í Breiðholti „í þessa einu skemmu“. Hann segir það hvorki uppbyggilegt né málefnalegt.
„Ég endurtek það að ég held að þessar uppbyggingaráætlanir í Breiðholtinu sé af hinu góða og verði heilmikil lyftistöng fyrir þetta gamalgróna hverfi,“ segir Hjálmar og vekur athygli á því að um stærsta hverfi Reykjavíkur sé að ræða.