Ólöf Björnsdóttir, fyrrverandi tengdamóðir barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, kveður sér ekki hafa hugkvæmst að senda Persónuvernd erindi vegna meðferðar forsætisráðuneytisins á persónuupplýsingum hennar.
Fyrir liggur að aðstoðarmaður Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra tók skjáskot af tölvupósti sem Ólöf sendi ráðuneytinu í febrúar þar sem hún óskaði eftir fundi með forsætisráðherra vegna þáverandi barnamálaráðherra, Ásthildar Lóu. Skjáskotið, með fullu nafni Ólafar, heimilisfangi hennar og farsímanúmeri, sendi aðstoðarmaður Kristrúnar áfram til aðstoðarmanns Ásthildar Lóu.
Þá liggur fyrir að í kjölfar ofangreindra atvika hafi Ásthildur Lóa nýtt þær persónuupplýsingar með því að hringja ítrekað í Ólöfu og mæta heim til hennar óboðin að kvöldi til.
Í fjölmiðlaviðtali 20. mars sl., kvöldið sem Ásthildur Lóa tilkynnti að hún hygðist segja af sér sem ráðherra, upplýsti ráðherrann aukinheldur um nafn Ólafar og hver tengsl hennar við barnsföður Ásthildar Lóu væru.
Ólöf stendur föst á því að henni hafi verið heitinn trúnaður um málið í símtali við Stjórnarráðið.
Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir stofnunina ekki hafa tekið mál Ólafar Björnsdóttur til skoðunar og því geti stofnunin ekki tekið afstöðu til þess að svo komnu máli.
„Berist okkur hins vegar kvörtun vegna þess má gera ráð fyrir að kannað verði nánar hvort umkvörtunarefnið heyrir undir gildissvið persónuverndarlaga, og þá eftir atvikum hvort meðferð upplýsinganna var í samræmi við þau lög,“ segir enn fremur í svari Helgu við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.