Hvorki Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra né Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, vilja tjá sig um það ráð sem ríkislögreglustjóri gaf Handknattleikssambandi Íslands að halda handboltalandsleiki Íslands og Ísraels fyrir luktum dyrum. Leikirnir fara fram hér á landi á miðvikudag og fimmtudag.
Lögreglan heyrir undir dómsmálaráðherra en íþróttamál undir mennta- og barnamálaráðherra og fengust þau skilaboð frá aðstoðarmanni dómsmálaráðherra að ráðherrann ætlaði ekki að tjá sig um málið. Heimir Már Pétursson, framkvæmda- og upplýsingastjóri þingflokks Flokks fólksins, bar þau boð frá mennta- og barnamálaráðherra að hann gæfi ekki kost á viðtali um málið, en vísaði á dómsmálaráðherra til svara.
Ríkislögreglustjóri hefur greint frá því opinberlega að neikvæð umræða hafi átt sér stað í tengslum við fyrirhugaða landsleiki, en nokkur umræða er sögð hafa verið um leikina á spjallþráðum stuðningsfólks Palestínumanna sem dvelja hér á landi, flestir á grundvelli alþjóðlegrar verndar.
Fram kom hjá ríkislögreglustjóra að lögreglan hefði áhyggjur af því að leikirnir kynnu að verða truflaðir, væntanlega af stuðningsfólki Palestínumanna eða og þeim sjálfum, en ekkert hefur komið fram um að þær hugrenningar eigi við rök að styðjast.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki vilja tjá sig um málið, kvaðst ekki hafa vitneskju um á hverju ráðleggingar ríkislögreglustjóra byggðust.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.