Ríkari aðgangur fyrir íslenskar vörur til Úkraínu

Við undirritunina. Frank Büchel, sendiherra Liechtenstein í Genf, Cecile Terese …
Við undirritunina. Frank Büchel, sendiherra Liechtenstein í Genf, Cecile Terese Myrseth, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, Yulia Svyrydenko, varaforsætisráðherra og efnahagsráðherra Úkraínu, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, og Jacques Gerber, fulltrúi svissneskra stjórnvalda gagnvart Úkraínu. Ljósmynd/Efnahagsráðuneyti Úkraínu

Upp­færður fríversl­un­ar­samn­ing­ur milli EFTA-ríkj­anna og Úkraínu var und­ir­ritaður í Kænug­arði í Úkraínu í dag. Logi Ein­ars­son, menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skólaráðherra, und­ir­ritaði samn­ing­inn fyr­ir Íslands hönd.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Stjórn­ar­ráði Íslands.

Samn­ing­ur­inn kveður á um bætt markaðskjör fyr­ir vöru­viðskipti milli Íslands og Úkraínu en viðræður um upp­færsl­una stóðu frá ár­inu 2023 og til loka síðasta árs.

Logi seg­ir í sam­tali við mbl.is ný­mælið í samn­ingn­um end­ur­spegla viðskipta­veru­leika dags­ins í dag og vís­ar hann þar til reglna um ra­f­ræn viðskipti, um lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki og sjálf­bær viðskipti.

All­ir hagn­ist á frjáls­um viðskipt­um

„Síðan eru auðvitað frek­ari upp­færsl­ur. Þetta fel­ur t.d. í sér rík­ari aðgang fyr­ir ís­lensk­ar kjötaf­urðir, unna mat­vöru og sæl­gæti á meðan Úkraína get­ur flutt inn græn­meti, korn­meti, unn­in mat­væli og drykkjar­föng í ein­hverj­um mæli.“

Þannig seg­ir ráðherr­ann að út­flytj­end­ur beggja vegna samn­ings­borðsins hagn­ist á upp­færsl­un­um og bæt­ir því við, í takti við tíðarand­ann í dag, að all­ir hagn­ist á frjáls­um viðskipt­um.

Óhugnaður í bak­g­arðinum

Logi er í sinni fyrstu heim­sókn til Úkraínu eft­ir að Rúss­ar hófu inn­rás­ar­stríð í ná­granna­rík­inu árið 2022.

Seg­ir hann mjög merki­legt að vera þar stadd­ur.

„Það er friðsamt. Þú sérð auðvitað mikið af her­mönn­um og lög­reglu, sem eru svona í varðstöðu en við höf­um ekki orðið vör við sír­en­ur eða neitt síðasta sól­ar­hring­inn. Okk­ur skilst að síðasti sól­ar­hring­ur hafi verið eini ró­legi sól­ar­hring­ur­inn í mjög lang­an tíma,“ seg­ir Logi.

Hann seg­ir skelfi­legt að vita af óhugnaðinum í bak­g­arðinum.

„Núna akkúrat þegar ég er að tala við þig er ég stadd­ur á nýrri end­ur­hæf­ing­ar- og fram­leiðslu­stöð Öss­ur­ar, sem þeir eru að koma sér upp, og hér eru auðvitað nokkr­ir fyrr­ver­andi her­menn sem eru að njóta þjón­ustu þeirra.“

Logi seg­ir þá frá heim­sókn í kirkju­g­arð í Kænug­arði frá í morg­un. „Já, við heim­sótt­um í morg­un kirkju­g­arð sem orðinn er allt of full­ur af nýj­um gröf­um ungra manna, þannig að þetta er áþreif­an­legt svona í þeim skiln­ingi.“

Seg­ir hann að svo virðist sem fólk ætli ekki að láta ástandið eyðileggja líf sitt. „Fólk er mikið á rölt­inu og á kaffi­hús­um og svona, eins og dag­legt líf er á friðsam­ari stöðum.“

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Logi Ein­ars­son, menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skólaráðherra. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Heim­sæk­ir skrif­stof­ur UNESCO

Ráðherr­ann mun einnig nýta ferðina og sækja heim skrif­stof­ur UNESCO, mennta-, vís­inda- og menn­ing­ar­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna, í borg­inni.

„Við erum að fara upp í UNESCO á eft­ir og heyra hljóðið í þeim. Síðan höf­um við átt til­fallandi sam­töl við aðra ráðherra sem hafa verið hérna,“ seg­ir Logi en ráðherr­ann og föru­neyti kveðja Kænug­arð eldsnemma í fyrra­málið og halda til Var­sjár í Póllandi með rútu.

„Það verður um tíu klukku­stunda rútu­ferð til Var­sjár og svo bara heim,“ seg­ir Logi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert