Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður í Kænugarði í Úkraínu í dag. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
Samningurinn kveður á um bætt markaðskjör fyrir vöruviðskipti milli Íslands og Úkraínu en viðræður um uppfærsluna stóðu frá árinu 2023 og til loka síðasta árs.
Logi segir í samtali við mbl.is nýmælið í samningnum endurspegla viðskiptaveruleika dagsins í dag og vísar hann þar til reglna um rafræn viðskipti, um lítil og meðalstór fyrirtæki og sjálfbær viðskipti.
„Síðan eru auðvitað frekari uppfærslur. Þetta felur t.d. í sér ríkari aðgang fyrir íslenskar kjötafurðir, unna matvöru og sælgæti á meðan Úkraína getur flutt inn grænmeti, kornmeti, unnin matvæli og drykkjarföng í einhverjum mæli.“
Þannig segir ráðherrann að útflytjendur beggja vegna samningsborðsins hagnist á uppfærslunum og bætir því við, í takti við tíðarandann í dag, að allir hagnist á frjálsum viðskiptum.
Logi er í sinni fyrstu heimsókn til Úkraínu eftir að Rússar hófu innrásarstríð í nágrannaríkinu árið 2022.
Segir hann mjög merkilegt að vera þar staddur.
„Það er friðsamt. Þú sérð auðvitað mikið af hermönnum og lögreglu, sem eru svona í varðstöðu en við höfum ekki orðið vör við sírenur eða neitt síðasta sólarhringinn. Okkur skilst að síðasti sólarhringur hafi verið eini rólegi sólarhringurinn í mjög langan tíma,“ segir Logi.
Hann segir skelfilegt að vita af óhugnaðinum í bakgarðinum.
„Núna akkúrat þegar ég er að tala við þig er ég staddur á nýrri endurhæfingar- og framleiðslustöð Össurar, sem þeir eru að koma sér upp, og hér eru auðvitað nokkrir fyrrverandi hermenn sem eru að njóta þjónustu þeirra.“
Logi segir þá frá heimsókn í kirkjugarð í Kænugarði frá í morgun. „Já, við heimsóttum í morgun kirkjugarð sem orðinn er allt of fullur af nýjum gröfum ungra manna, þannig að þetta er áþreifanlegt svona í þeim skilningi.“
Segir hann að svo virðist sem fólk ætli ekki að láta ástandið eyðileggja líf sitt. „Fólk er mikið á röltinu og á kaffihúsum og svona, eins og daglegt líf er á friðsamari stöðum.“
Ráðherrann mun einnig nýta ferðina og sækja heim skrifstofur UNESCO, mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, í borginni.
„Við erum að fara upp í UNESCO á eftir og heyra hljóðið í þeim. Síðan höfum við átt tilfallandi samtöl við aðra ráðherra sem hafa verið hérna,“ segir Logi en ráðherrann og föruneyti kveðja Kænugarð eldsnemma í fyrramálið og halda til Varsjár í Póllandi með rútu.
„Það verður um tíu klukkustunda rútuferð til Varsjár og svo bara heim,“ segir Logi.