Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum kallar eftir frekari fjárheimildum, auknum mannafla og breytingu á lögum til að sinna landamæraeftirliti. Skilaboð hans til stjórnmálamanna eru: „Við þurfum að vakna.“
Úlfar er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar um landamæraeftirlit á Keflavikurflugvelli. Hann segist nokkuð sáttur við eftirlit og stöðu á ytri landamærum Íslands en gera þyrfti betur.
Hann kallar eftir auknum fjárheimildum frá ríkissjóði upp á hálfan milljarð króna. Framlag til embættisins í ár er um þrír og hálfur milljarður. Úlfar segir að embættið þurfi að fjölga starfsmönnum á vellinum og hann telur þörf á að ráða tíu til fjórtán fangaverði. Í dag eru tuttugu manns í gæsluvarðhaldi að kröfu embættisins. Þá kallar Úlfar eftir breytingu á lögum svo gerlegt sé að sinna starfinu og þar með eftirliti á landamærunum.
„Það þarf auðvitað að hlusta á þessa embættismenn sem standa þarna í fremstu línu. Það er ekki nóg gert. Við þurfum að verja meira fjármagni í löggæslu og landhelgisgæslu. Það blasir við. Það eru svona mín skilaboð,“ segir Úlfar.
Hann er sannfærður um að það eru sóknarfæri til að takast á við meðal annars erlenda glæpahópa sem skotið hafa rótum á Íslandi. Úlfar segist hafa fundið meðbyr frá Jóni Gunnarssyni og Guðrúnu Hafsteinsdóttur í þeirri viðleitni að bregðast við stöðunni. Þá segist hann binda vonir við nýjan dómsmálaráðherra sem er Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. „En það dugar ekki endalaust að senda frá sér minnisblöð. Það dugar ekki endalaust. Maður er sem embættismaður dálítið í þeim sporum að senda minnisblöð sem að svo verður ekkert úr,“ segir Úlfar í viðtalinu.
Frávísunum hefur fjölgað mikið en Úlfar telur að gera þurfi betur. „Þá tel ég fyrir sjálfstæða þjóð þá getum við, held ég gert miklu miklu betur. Við þurfum stífari útlendingalöggjöf. Landamæralögin ég þyrfti, eða lögregla þyrfti að sjá allar þvingunar og frávísunar- og brottvísunarheimildir í landamæralögunum sjálfum,“ segir Úlfar.
Hann tekur sem dæmi ef útlendingi er frávísað á landamærunum og hann kærir frávísunina til kærunefndar útlendingamála þá er honum skipaður talsmaður og sá kostnaður fellur á íslenskan almenning. Úlfar telur rétt að afnema þetta fyrirkomulag. „Skera á þennan þráð,“ eins og hann orðar það.
Úlfar er fyrst og fremst að horfa til þess að hægt sé að frávísa grunuðum brotamönnum eða fólki sem líkast til er að koma til að stunda svarta vinnu. Hann nefnir fólk frá Albaníu, Georgíu og Norður Afríku. Hann tekur fram að hann er ekki að tala um þessar þjóðir í heild sinni en frá þessum löndum og svæðum hafa komið einstaklingar sem ekki eiga hefðbundin erindi til Íslands.
Úlfar telur Íslendinga enn geta snúið þróuninni sér í hag og víða séu sóknarfæri til að bregðast starfsemi erlendra glæpahópa hér á landi. Skilaboðin hans er skýr, eins og kom fram hér að ofan. „Við þurfum bara að vakna.“
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum kallar eftir stuðningi ríkisstjórnar, þings og þjóðar.
Þátturinn í heild sinn er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.