Stjórnendur Ríkisútvarpsins vega nú og meta kosti þess að flytja starfsemi RÚV úr Efstaleiti. Húsnæðismál voru rædd á fundi stjórnar Ríkisútvarpsins fyrir skemmstu og segir útvarpsstjóri að á næstunni verði framtíðarþörf fyrir húsnæði metin.
Útvarpshúsið í Efstaleiti er rúmir 16 þúsund fermetrar að stærð. Húsið hefur um langt árabil þótt vera óhentugt og dýrt í rekstri. Sem kunnugt er hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að bæta fjárhagsstöðu RÚV, til að mynda með sölu lóða undir íbúðir og með því að leigja hluta húsnæðisins til heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.
Rætt var á stjórnarfundi RÚV að ef fyrirtækið kæmist af með sjö þúsund fermetra í stað þeirra 16 þúsund sem núverandi húsnæði er væri mögulega hagkvæmara að koma sér fyrir í öðru húsnæði.
„Húsnæðismálin hafa verið til skoðunar um nokkurt skeið vegna vaxandi viðhalds- og rekstrarkostnaðar núverandi húsnæðis í Efstaleiti, sem tekið var í notkun fyrir rúmum 40 árum,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.