Langur hlýindakafli á landinu verður á enda við lok vikunnar ef marka má veðurspár. Sannkölluð vorblíða hefur leikið um landsmenn og ekki síst á austurhelmingi landsins þar sem hitinn komst í tæpar 18 gráður á Norðausturlandi í gær.
„Þetta hefur verið tveggja til þriggja vikna hlýindakafli en það verða umskipti um helgina. Síðasti vel hlýi dagurinn verður á morgun en svo hallar hægt og rólega undan,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Bliku, í samtali við mbl.is.
Einar segir að hæðin suðaustur undan gefi sig og mjakist til austurs en hún hefur beint mildu lofti yfir landið að undanförnu.
„Þetta er ekki eins og stundum er á vorin, að eins og hendi sé veifað þá sé komið eitthvað annað veður. Þetta mun gerast á nokkrum dögum.“
Einar segir að í kortunum sé kólnandi veður og að kuldinn komi ekki úr norðri heldur meira úr vestri og suðvestri.
„Mér sýnist að það verði engin átök í þessu, hvorki stormur né hríð. Hitinn verður um eða undir meðallagi miðað við árstíma. Það verður sól og hiti á Suðurlandi yfir daginn en frost á nóttunni, og hitinn verður um eða undir frostmarki fyrir norðan. Það gæti komið eitthvert hret og einhver snjókoma fyrir norðan um miðja viku í dymbilvikunni.“
Einar segist hafa verið að koma úr dekkjaskiptum í morgun og þar hafi menn haft á orði að páskahret væri í vændum og að fólk þyrði ekki að fara í dekkjaskipti fyrr en páskahretið væri yfirstaðið.
„Þetta er svolítið fast í þjóðarsálinni að það komi alltaf páskahret, alveg burtséð frá því hvenær páskarnir eru. Í fyrra voru til að mynda páskarnir liðnir á þessum tíma.“