Ástæðu þess að kerfi Vodafone á Íslandi lágu niðri um stund á tíunda tímanum í kvöld má rekja til bilunar í búnaði frá birgja.
Þetta segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, móðurfélags Vodafone, í samtali við mbl.is.
Birginn sem Herdís vísar til er Orkuveita Reykjavíkur eða öllu heldur Ljósleiðarinn. Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að klukkan 21.10 í kvöld hafi orðið bilun í stofnneti Ljósleiðarans sem olli víðtækum áhrifum á netsamband viðskiptavina.
„Hafði þetta áhrif á viðskiptavini Vodafone og voru víðtæk áhrif á netþjónustu í um 20 mínútur. Ekki er vitað á þessari stundu hvað olli biluninni en unnið er að greiningu,“ segir í tilkynningunni.
Innt eftir því hversu víðtæk bilunin hafi verið á kerfum Vodafone segir Herdís ansi mikið hafa legið niðri.
„Það var hægt að hringja og þess háttar en það lá ansi mikið niðri. Við erum bara að greina þetta í raun og veru og hvað þetta var.“
Öll kerfi Vodafone virka núna.