„Eiginlega“ hitamet féll í Reykjavík í dag þegar meðalhiti átta athugana reyndist vera 10,0 gráður. Hefur dægurhiti aldrei náð 10 stigum í Reykjavík svo snemma ársins sem nú.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu á Facebook-síðu veðurvefsins Bliku. Hann segir daglegar mælingar sem hann hefur undir höndum vera frá 1901.
Það ár sem kemst næst þessum tíu gráðum mældist árið 1928, þegar dægurhiti reiknaðist 9,8 gráður 3. apríl það ár.
„En það var víðar sem dægurhitinn náði 10 stigum vestanlands, m.a. í Stykkishólmi og eins í Húsafelli þar sem hann reyndist 10,9°C. Það samsvarar nokkurn veginn meðalhita í júlí!
Og auðvitað er þetta stórfrétt og verður enn stærri í augum veðurmetaklúbbsins ef ekki finnst sambærilegur eða hærri hiti í Stykkishólmi, með sína löngu og merkilegu mælaröð.
Níundi apríl nú á sér fullkomna veðurandstæðu, kannski ekki eiginlegt met, en veður sem minnst er á oft og iðulega, þó langt sé um liðið,“ skrifar Einar.