Stærstu mögulegu flóð í Skjálfandafljóti í kjölfar eldgoss í Bárðarbungu yrðu tíu sinnum stærri en stærstu leysingaflóð, eitthvað sem núlifandi menn hafa aldrei séð fyrr.
Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Bergs Einarssonar, fagstjóra vatnarannsókna á Veðurstofu Íslands, á íbúafundi íbúa Þingeyjarsveitar, sem sveitarfélagið stóð að í samstarfi við Veðurstofuna og almannavarnir ríkislögreglustjóra í Ýdölum í dag.
Á fundinum fengu íbúar kynningu á stöðunni í Bárðarbungu og farið var yfir áhrif mögulegra flóða í Skjálfandafljóti sem myndu fylgja eldgosi undir jökli í Bárðarbungu.
Bergur fór yfir niðurstöður flóðaútreikninga og Hreiðar Hreiðarsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, fór yfir viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Bárðarbungu og svaraði spurningum íbúa.
Þá kvaddi Halldóra, frá Rauða krossinum í Þingeyjarsýslum, sér hljóðs og ræddi meðal annars fyrirkomulag fjöldahjálparstöðva.
Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti sveitarstjórnar, stýrði fundinum í fjarveru Ragnheiðar Jónu Ingimarsdóttur sveitarstjóra.
Segir Gerður í samtali við mbl.is að virkilega vel hafi verið mætt á fundinn. Helst hafi mögulegar sviðsmyndir brunnið á íbúum hvað möguleg flóð í Skjálfandafljóti varðar. Hversu lengi mögulegt flóð yrði að birtast í byggð.
„Rýmingarstaðir og rýmingaráætlanir brunnu á fólki. Viðbragðsáætlun almannavarna hefur verið uppfærð. Bæjum sem taldir eru í hættu hefur fækkað vegna þróunar í mælingum en það eru samt þó nokkrir bæir sem þarf að rýma ef þessi atburður gengur eftir,“ segir Gerður.
Hún segir fólk almennt hafa haldið ró sinni og verið tilbúið að vera í viðbragðsgír ef stór atburður verður.
„Fólki var bara sagt: „Þetta er versta sviðsmyndin. Við reiknum alls ekki með að hún muni raungerast...“ þannig að mér fannst fólk bara meta það að menn kæmu hreint fram og sögðu frá niðurstöðum rannsókna og frá flóðamælingum Veðurstofunnar og til hvers þær geta leitt.
Ég var ekki vör við annað en að fólk væri mjög þakklátt fyrir þessar upplýsingar og fyrir að fá kost á því að spyrja spurninga, sem það nýtti sér virkilega vel,“ segir Gerður.