Gríðarstór flóð í verstu sviðsmyndinni

Síðast gaus út frá Bárðarbungu í Holu­hrauni árin 2014-2015. Það …
Síðast gaus út frá Bárðarbungu í Holu­hrauni árin 2014-2015. Það gos var þó ekki undir jökli. mbl.is/Rax

Stærstu mögu­legu flóð í Skjálf­andafljóti í kjöl­far eld­goss í Bárðarbungu yrðu tíu sinn­um stærri en stærstu leys­inga­flóð, eitt­hvað sem núlif­andi menn hafa aldrei séð fyrr.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Bergs Ein­ars­son­ar, fag­stjóra vatn­a­rann­sókna á Veður­stofu Íslands, á íbúa­fundi íbúa Þing­eyj­ar­sveit­ar, sem sveit­ar­fé­lagið stóð að í sam­starfi við Veður­stof­una og al­manna­varn­ir rík­is­lög­reglu­stjóra í Ýdöl­um í dag.

Veður­stofa, lög­regla og Rauði kross­inn

Á fund­in­um fengu íbú­ar kynn­ingu á stöðunni í Bárðarbungu og farið var yfir áhrif mögu­legra flóða í Skjálf­andafljóti sem myndu fylgja eld­gosi und­ir jökli í Bárðarbungu.

Berg­ur fór yfir niður­stöður flóðaút­reikn­inga og Hreiðar Hreiðars­son, full­trúi lög­reglu­stjór­ans á Norður­landi eystra, fór yfir viðbragðsáætl­un vegna eld­goss í Bárðarbungu og svaraði spurn­ing­um íbúa.

Þá kvaddi Hall­dóra, frá Rauða kross­in­um í Þing­eyj­ar­sýsl­um, sér hljóðs og ræddi meðal ann­ars fyr­ir­komu­lag fjölda­hjálp­ar­stöðva.

Vel mætt og íbú­ar ró­leg­ir

Gerður Sig­tryggs­dótt­ir, odd­viti sveit­ar­stjórn­ar, stýrði fund­in­um í fjar­veru Ragn­heiðar Jónu Ingimars­dótt­ur sveit­ar­stjóra.

Seg­ir Gerður í sam­tali við mbl.is að virki­lega vel hafi verið mætt á fund­inn. Helst hafi mögu­leg­ar sviðsmynd­ir brunnið á íbú­um hvað mögu­leg flóð í Skjálf­andafljóti varðar. Hversu lengi mögu­legt flóð yrði að birt­ast í byggð.

„Rým­ing­arstaðir og rým­ingaráætlan­ir brunnu á fólki. Viðbragðsáætl­un al­manna­varna hef­ur verið upp­færð. Bæj­um sem tald­ir eru í hættu hef­ur fækkað vegna þró­un­ar í mæl­ing­um en það eru samt þó nokkr­ir bæir sem þarf að rýma ef þessi at­b­urður geng­ur eft­ir,“ seg­ir Gerður.

Hún seg­ir fólk al­mennt hafa haldið ró sinni og verið til­búið að vera í viðbragðsgír ef stór at­b­urður verður.

„Fólki var bara sagt: „Þetta er versta sviðsmynd­in. Við reikn­um alls ekki með að hún muni raun­ger­ast...“ þannig að mér fannst fólk bara meta það að menn kæmu hreint fram og sögðu frá niður­stöðum rann­sókna og frá flóðamæl­ing­um Veður­stof­unn­ar og til hvers þær geta leitt.

Ég var ekki vör við annað en að fólk væri mjög þakk­látt fyr­ir þess­ar upp­lýs­ing­ar og fyr­ir að fá kost á því að spyrja spurn­inga, sem það nýtti sér virki­lega vel,“ seg­ir Gerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert