This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Skólinn er sá staður þar sem þar sem allir eiga að fá það sama. Börn velja ekki foreldra sína og grunnskólar eiga því að virka sem jöfnunartæki og bera ábyrgð á framförum nemenda í námi.
Þetta segir Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri. Hann var gestur í Dagmálum þar sem samræmt námsmat og lokamat í grunnskólum var til umræðu.
Frumvarp um nýja námsmatið matsferil er nú til meðferðar hjá þinginu.
Jón Pétur telur námsmatið ekki samræmt og kallar eftir nýjum samræmdum könnunarprófum í stað matsferilsins. Þá telur hann einnig mikilvægt að innleiða lokapróf úr grunnskólum.
„Ef við ætlum alltaf að forða fólki frá því sem er erfitt eða það kvíðir fyrir, þá mun það aldrei geta tekist á við neitt eftir grunnskóla. Enginn áföll af neinu tagi,“ segir Jón Pétur spurður hvort prófkvíði eða veikindi geti ekki skekkt myndina verði aðeins horft til frammistöðu nemenda í prófum.
Hann segir kvíða ekki óyfirstíganlegan, það þurfi aftur á móti að vinna markvisst með hann vilji fólk ná árangri.
„Ef þú ert illa fyrir kallaður hvern dag eða veikur, þá verða sjúkrapróf.“
Hann bendir þá á að samræmdukönnunarprófin séu fyrst og fremst til þess fallinn að skoða framfarir nemenda.
„Það þarf líka að gera krökkunum grein fyrir því að þetta er ekki stærsti dómur í heimi heldur er ágætt fyrir alla, og hvað þá sveitarfélögin og foreldrana, að sjá hvar börnin standa miðað við aðra í landinu.
Ef þú hefur ekkert viðmið um það – raunverulegt, sanngjarnt, réttlátt viðmið, þá er svo erfitt að átta sig á því hvar barnið stendur og hvert það á síðan að halda áfram miðað við þá stöðu sem það sýnir í svona samræmdu prófi.“
Jón Pétur segir grunnskóla eiga að vera jöfnunartæki og bera ábyrgð á framförum barna.
„Börnin velja ekki foreldra sína. Þau geta verið alls konar foreldrarnir. Staðan – félagsleg eða fjárhagsleg, getur verið gríðarlega misjöfn og hvernig er haldið utan um börnin. Peningar hjálpa ekkert alltaf þar,“ segir hann og bætir við:
„Foreldrarnir geta verið mjög ríkir en alltaf að vinna og aldrei neitt með barninu. Skólinn er í raun staðurinn þar sem allir eiga að fá það sama, eða við komum til móts við fólk. Við eigum síðan að skoða framfarir hjá barninu.“