Skarpar lækkanir á heimsmarkaðsverði á hráolíu, bensíni og dísilolíu gætu verið til marks um að aðilar á markaði sjái fyrir sér kreppuástand á næstunni.
Forstjóri Skeljungs og framkvæmdastjóri N1 segja erfitt að meta hvenær skarpar lækkanir muni sjást á eldsneytisverði hérlendis en verð hefur sveiflast til og frá eftir því hvenær og hvaða yfirlýsingar berast frá Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Þannig hafði hráolíuverð hækkað um skamma stund í gær áður en það féll um 6% eftir að Trump tilkynnti um aukalega tolla á Kínverja eftir að Kínverjar höfðu brugðist við tollum Bandaríkjanna með hefndartollum. Kínverjar hafa svo aftur brugðist við í dag með 84% tolli á bandarískar vörur.
Þegar núverandi verð á markaði á markaði er borið saman við meðalverð í mars þá hafði bensínverð lækkað um 3%, dísilverð um 9% og hráolíuverð um 4%.
„Svona ef horft er á það sem er að gerast þá er bara mjög líklegt að heimsmarkaðsverð muni halda áfram að falla. Það sem markaðurinn er að segja er í raun að Trump sé að valda heimskreppu,“ segir Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs.
Það þýði í raun að viðskiptastríðið muni hægja á vexti í öllum hagkerfum heimsins.
„Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar Trump fer fram úr í dag. Hvoru megin hann fer fram úr því það hefur áhrif á alla heimsbyggðina,“ segir Þórður.
Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1, segir að erfitt sé að lesa í markaðinn eins og stendur.
„Það er í raun mjög erfitt að lesa í markaðinn. Það sem er þó ljóst er að það er órói á mörkuðum en við munum fylgjast mjög vel með þessu og aðlaga okkur að honum eins og efni standa til,“ segir Magnús.
Hann bendir á að verð hafi lækkað þrívegis hjá fyrirtækinu undanfarinn mánuð.
„Ekki stórar lækkanir í hvert skipti, en t.d. í gær lækkuðum við um 2 krónur í bensíninu. Hversu hratt þetta hefur áhrif á útsöluverð er háð ýmsum þáttum og því get ég ekki tjáð mig nákvæmlega hvenær lækkun kemur inn ef markaðurinn heldur áfram með sama hætti,“ segir Magnús.