Félag atvinnurekenda (FA) segir það ekki rétt hjá Ríkisendurskoðun að félagið hafi ekki rökstutt gagnrýni sína á stofnunina vegna málefna Íslandspósts. Þvert á móti hafi félagið sent stofnuninni ítarlega gagnrýni.
Sagt var frá erindi Félags atvinnurekenda til innviðaráðuneytisins í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag, en þar var því haldið fram að Ríkisendurskoðun hefði brugðist í eftirliti sínu með Íslandspósti. Þá hefði stofnunin verið vanhæf til að gera úttekt á Póstinum í ljósi starfa sinna fyrir fyrirtækið.
Ásamt innviðaráðuneytinu fengu fleiri aðilar í stjórnkerfiinu afrit af þessu erindi félagsins.
Áður hafði Morgunblaðið sagt frá því á laugardaginn var að Félag atvinnurekenda teldi Byggðastofnun hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt með starfsemi Póstsins, en Byggðastofnun tók við þessu eftirlitshlutverki af Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), sem áður hafði eftirlit með starfsemi Póstsins.
„Að mati Félags atvinnurekenda hefur Ríkisendurskoðun einnig brugðist hlutverki sínu í þessum málum og um leið opinberað vanhæfni sína til að leggja mat á starfsemi Póstsins,“ sagði í frétt Morgunblaðsins sl. mánudag. „Segja má að Ríkisendurskoðun hafi skautað fram hjá öllum meginatriðum sem fram komu í skýrslubeiðni Alþingis. Svo virðist sem niðurstöður frumathugunar Ríkisendurskoðunar séu settar fram í þeim tilgangi að villa um fyrir Alþingi í viðleitni þess til að hafa eftirlit með meðferð almannafjár,“ sagði þar jafnframt.
Nánar var fjallað um gagnrýni FA á Ríkisendurskoðun í Morgunblaðinu sl. mánudag og svaraði stofnunin þeirri gagnrýni með tilkynningu sem sagt var frá á mbl.is í gær.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.