Í hagspá Landsbankans sem kom út í morgun er gert ráð fyrir ágætum hagvexti og hægt lækkandi verðbólgu og vöxtum. Una Jónsdóttir hagfræðingur í bankanum segir hins vegar að óvissan sé „gríðarleg“ og að brugðið geti til beggja vona með verðbólguhorfur hérlendis.
Samkvæmt spánni verður hagvöxtur í ár 1,4% og verðbólga 3,9%.
Una segir fréttir berast mjög hratt af tollamálum og í raun sé afar erfitt að greina áhrif sviptinga í alþjóðahagkerfinu á íslenskt efnahagslíf eins og sakir standa.
„Við gætum fengið hærra verð á innfluttum vörum en við gætum líka fengið lægra verð vegna offramboðs á vörum úti í heimi. Það gæti tímabundið orsakað verðlækkun,“ segir Una.
Eru ekki líkur á því að hagspáin verði ómarktækt plagg nánast á svipstundu vegna sviptinga í tollamálum?
„Við þurfum bara sífellt að vera að endurmeta þessa hluti. Matið sem við birtum í morgun tekur mið af stöðunni eins og við sáum hana þá. Nú hefur hins vegar t.d. verið sagt að mögulega verði lyf ekki undanskilin tollum eins og til stóð og það gæti breytt stöðunni strax,“ segir Una. Frá Íslandi til Bandaríkjanna er mikið flutt af lyfjum og læknatækjum.
En er ekki sá möguleiki í stöðunni að Ísland sé í hlutfallslega betri stöðu en aðrir og þar af leiðandi gætum við verið í sterkari stöðu en fyrir tollastríð?
„Það gæti vel verið en á eftir að koma í ljós. Við erum í lægsta tollflokknum og kannski er það jákvætt. En aftur á móti gæti heildareftirspurn dregist saman í Bandaríkjunum vegna efnahagsþrenginga þar og það hefur áhrif hér. En vissulega erum við mögulega í betri samkeppnisstöðu en einhverjir,“ segir Una.
Hún segir áhyggjur af kreppuástandi til frambúðar skiljanlegar en sjálf hafi hún ekki sérstaklegar áhyggjur af því á Íslandi.
„Okkur finnst langlíklegast að þetta fari ágætlega og að hagvöxtur verði 1,4% samkvæmt okkar spá. Við reiðum okkur mikið á ferðamenn frá Bandaríkjunum og þar gæti ferðavilji minnkað. En þrátt fyrir það erum við ekki að spá neinni kreppu eins og staðan er þó að allt geti gerst,“ segir Una.