Tvöfalda á fjölda rýma á öryggisgeðdeild Landspítala, koma á fót sérstakri öryggisstofnun og leggja fram frumvörp um breytingar á lögum til að gera úrbætur á þjónustu og úrræðum fyrir einstaklinga sem sæta þurfa sérstökum öryggisráðstöfunum.
Starfshópur sjö ráðuneyta lagði fram tillögurnar sem samþykktar voru síðasta föstudag.
Greint var frá skipun hópsins í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Morgunblaðsins og Austurfrétta um mál Alfreðs Erlings Þórðarsonar sem myrti hjón í Neskaupstað í ágúst í fyrra. Alfreð var metinn ósakhæfur og var þar með sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins. Þrátt fyrir ósakhæfi komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Alfreð hefði orðið hjónunum að bana.
Alfreð er talinn hættulegur samfélaginu og gerði dómurinn honum að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, réttargeðdeild. Báru dómskvaddir matsmenn vitni um það að Alfreð hafi sýnt skýr merki um geðrof og að hann hafi verið fullur af ranghugmyndum.
Mál Alfreðs var tekið fyrir í héraðsdómi í byrjun febrúar og dómurinn féll í byrjun mars.
Alma Möller heilbrigðisráðherra ræddi í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og Austurfrétta við mbl.is og sagði að verið væri að smíða úrræði fyrir hættulega einstaklinga.
Rýmin á öryggisgeðdeild Landspítala verða sextán eftir framkvæmdirnar, en þau eru nú átta. Segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að framkvæmdir séu þegar hafnar.
Alma Möller heilbrigðisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið 15. febrúar, í kjölfar aðalmeðferðar í máli Alfreðs, að í kringum 20 manns væru vistaðir á réttar- eða öryggisgeðdeild og þörf væri á rými til að vista fleiri.
Í tilkynningu Stjórnarráðsins um þær aðgerðir sem ráðist verður í segir að forsætisráðuneytið muni hafa forystu um mótun heildarstefnu, verklags og ábyrgðarskiptingu í málaflokknum. Sérstaklega verði unnið að miðlunarheimildum milli ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga.
Alfreð Erling hafði síðasta sumar, áður en hann varð hjónunum að bana, verið vistaður á geðdeild Landspítala og úrskurðaður til 12 vikna nauðungarvistunar þar. Í munnlegum málflutningi verjanda hans fyrir dómi kom hins vegar fram að Alfreð hefði neitað lyfjameðferð á geðdeildinni og óskað eftir að hann yrði útskrifaður.
Í kjölfarið var hann útskrifaður af geðdeildinni. Samkvæmt heimildum mbl.is var það skilningur heilbrigðisstarfsfólks á geðsviði Landspítala að Alfreð hefði verið útskrifaður í hendur geðheilsuteymis Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og að eftirfylgni væri í höndum þeirrar stofnunar. Hins vegar kannaðist enginn við slík samskipti hjá HSA. Sagði teymisstjóri geðheilsuteymis HSA að fjöldi dæma væri um að kerfi Landspítala og HSA töluðu ekki saman.
Stofna á sérstaka öryggisstofnun sem er ætlað að samþætta félags- og geðheilbrigðisþjónustu. Það er ráðuneyti Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðuneytið, sem fer fyrir þeirri vinnu og er undirbúningur hafinn.
Þá mun Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra láta vinna frumvarp um breytingar á VII. kafla almennra hegningarlaga, sem fjallar um öryggisráðstafanir, sem og eftir atvikum fleiri laga sem að málaflokknum lúta.
Þá mun ráðuneyti Ölmu Möller vinna frumvarp um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem varða nauðung í heilbrigðisþjónustu.
Er því lofað í tilkynningu Stjórnarráðsins að ríkisstjórnin hafi tryggt fjármagn til aðgerðanna í fjármálaáætlun 2026-2030 og að nú hefjist vinna við að hrinda tillögunum í framkvæmd.