Stækka öryggisgeðdeildina og stofna öryggisstofnun

Örrygis- og réttargeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi.
Örrygis- og réttargeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvö­falda á fjölda rýma á ör­ygg­is­geðdeild Land­spít­ala, koma á fót sér­stakri ör­ygg­is­stofn­un og leggja fram frum­vörp um breyt­ing­ar á lög­um til að gera úr­bæt­ur á þjón­ustu og úrræðum fyr­ir ein­stak­linga sem sæta þurfa sér­stök­um ör­ygg­is­ráðstöf­un­um. 

Starfs­hóp­ur sjö ráðuneyta lagði fram til­lög­urn­ar sem samþykkt­ar voru síðasta föstu­dag.

Greint var frá skip­un hóps­ins í kjöl­far ít­ar­legr­ar um­fjöll­un­ar Morg­un­blaðsins og Aust­ur­frétta um mál Al­freðs Erl­ings Þórðar­son­ar sem myrti hjón í Nes­kaupstað í ág­úst í fyrra. Al­freð var met­inn ósakhæf­ur og var þar með sýknaður af refsi­kröfu ákæru­valds­ins. Þrátt fyr­ir ósakhæfi komst dóm­ur­inn að þeirri niður­stöðu að Al­freð hefði orðið hjón­un­um að bana. 

Al­freð er tal­inn hættu­leg­ur sam­fé­lag­inu og gerði dóm­ur­inn hon­um að sæta ör­ygg­is­gæslu á viðeig­andi stofn­un, rétt­ar­geðdeild. Báru dómskvadd­ir mats­menn vitni um það að Al­freð hafi sýnt skýr merki um geðrof og að hann hafi verið full­ur af rang­hug­mynd­um. 

Mál Al­freðs var tekið fyr­ir í héraðsdómi í byrj­un fe­brú­ar og dóm­ur­inn féll í byrj­un mars.

Alma Möller heil­brigðisráðherra ræddi í kjöl­far um­fjöll­un­ar Morg­un­blaðsins og Aust­ur­frétta við mbl.is og sagði að verið væri að smíða úrræði fyr­ir hættu­lega ein­stak­linga. 

Rým­um fjölgað í sex­tán á ör­ygg­is­geðdeild

Rým­in á ör­ygg­is­geðdeild Land­spít­ala verða sex­tán eft­ir fram­kvæmd­irn­ar, en þau eru nú átta. Seg­ir í til­kynn­ingu frá Stjórn­ar­ráðinu að fram­kvæmd­ir séu þegar hafn­ar.

Alma Möller heil­brigðisráðherra sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið 15. fe­brú­ar, í kjöl­far aðalmeðferðar í máli Al­freðs, að í kring­um 20 manns væru vistaðir á rétt­ar- eða ör­ygg­is­geðdeild og þörf væri á rými til að vista fleiri. 

Í til­kynn­ingu Stjórn­ar­ráðsins um þær aðgerðir sem ráðist verður í seg­ir að for­sæt­is­ráðuneytið muni hafa for­ystu um mót­un heild­ar­stefnu, verklags og ábyrgðar­skipt­ingu í mála­flokkn­um. Sér­stak­lega verði unnið að miðlun­ar­heim­ild­um milli ráðuneyta, stofn­ana og sveit­ar­fé­laga.

Kerf­in tala ekki sam­an

Al­freð Erl­ing hafði síðasta sum­ar, áður en hann varð hjón­un­um að bana, verið vistaður á geðdeild Land­spít­ala og úr­sk­urðaður til 12 vikna nauðung­ar­vist­un­ar þar. Í munn­leg­um mál­flutn­ingi verj­anda hans fyr­ir dómi kom hins veg­ar fram að Al­freð hefði neitað lyfjameðferð á geðdeild­inni og óskað eft­ir að hann yrði út­skrifaður. 

Í kjöl­farið var hann út­skrifaður af geðdeild­inni. Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is var það skiln­ing­ur heil­brigðis­starfs­fólks á geðsviði Land­spít­ala að Al­freð hefði verið út­skrifaður í hend­ur geðheilsu­teym­is Heil­brigðis­stofn­un­ar Aust­ur­lands (HSA) og að eft­ir­fylgni væri í hönd­um þeirr­ar stofn­un­ar. Hins veg­ar kann­aðist eng­inn við slík sam­skipti hjá HSA. Sagði teym­is­stjóri geðheilsu­teym­is HSA að fjöldi dæma væri um að kerfi Land­spít­ala og HSA töluðu ekki sam­an. 

Sér­stök ör­ygg­is­stofn­un 

Stofna á sér­staka ör­ygg­is­stofn­un sem er ætlað að samþætta fé­lags- og geðheil­brigðisþjón­ustu. Það er ráðuneyti Ingu Sæ­land, fé­lags- og hús­næðismálaráðuneytið, sem fer fyr­ir þeirri vinnu og er und­ir­bún­ing­ur haf­inn.

Þá mun Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir dóms­málaráðherra láta vinna frum­varp um breyt­ing­ar á VII. kafla al­mennra hegn­ing­ar­laga, sem fjall­ar um ör­ygg­is­ráðstaf­an­ir, sem og eft­ir at­vik­um fleiri laga sem að mála­flokkn­um lúta. 

Þá mun ráðuneyti Ölmu Möller vinna frum­varp um breyt­ing­ar á lög­um um rétt­indi sjúk­linga sem varða nauðung í heil­brigðisþjón­ustu. 

Er því lofað í til­kynn­ingu Stjórn­ar­ráðsins að rík­is­stjórn­in hafi tryggt fjár­magn til aðgerðanna í fjár­mála­áætl­un 2026-2030 og að nú hefj­ist vinna við að hrinda til­lög­un­um í fram­kvæmd. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert