Mikill árangur myndi nást í skólakerfinu ef kennarar myndu oftar hringja heim og hrósa þeim nemendum sem rekast illa í kerfinu.
Þetta segir Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri, í Dagmálum.
„Foreldrarnir hafa líklegast aldrei fengið hrós fyrir þessi börn, það er alltaf eitthvað neikvætt,“ segir hann.
Hann telur mikilvægt að efla jákvæð tengsl á milli heimila og skóla og byggja þannig upp traust á milli kennara og foreldra. Alltof oft einkennist samskiptin þeirra á milli af neikvæðni.
„Það tekur tíma að ná sumum sem eru erfiðastir, en að ná þeim á þessum jákvæðu nótum og styrkja stanslaust jákvæða hegðun, hringja heim við hvert jákvætt tilfelli og styrkja tengslin heim – foreldrar sem heyra síðan þegar barnið brýtur af sér, og þú hringir og segir að eitthvað hafi komið upp á, þá eru þau mjög líkleg til að trúa þér og vera með þér í liði vegna þess að þau vita að þér þykir vænt um barnið þeirra.“
Hann segir stemninguna í skólanum verða jákvæðari og betri séu tengslin við heimilin efld með þessum hætti.
„Þetta sparar fleiri tugi klukkutíma í vinnu fyrir kennara svo þeir geta einbeitt sér frekar að því að byggja upp jákvæða menningu í skólanum.“
Hann segir mikilvægt að þetta sé gert af einlægni þannig að foreldrar finni að kennurum þyki raunverulega vænt um nemendurna.
„Þegar þú ert kominn þangað, og þér þykir virkilega vænt um barnið, þá er eiginlega samstarfið gulltryggt til að vera gott áfram í skólanum. Þá er þetta ekki megnið af þessum foreldravanda sem menn eru að tala um.“
Jón Pétur segir jákvæðu tengslin og góð skólamenning lykilatriði sem alltof sjaldan sé talað um.
„Og passa sig að smána aldrei nemendur fyrir framan aðra krakka, reyna að setja sig í spor krakkanna, höfða til þeirra betri manns, og stanslaust láta þau finna að þér þyki vænt um þá jafnvel þau þau láti ekki alltaf vel.“
Hann segir mikil til þess vinna að foreldrasamfélagið hugsi jákvætt um skólann og tali vel um hann heima.
„Ég heyri þetta svo oft frá foreldrum: „Heyrðu ég hef aldrei fengið símtal heim áður, nema jú neikvæð, en jákvæð símtal upp úr þurru – vá.“ Það þarf ekki nema fimm mínútur, þá ertu búinn að vinna þér inn ofboðslega mikið hvað framhaldið varðar. Foreldrið er líka líklegra til þess að hringja í þig og leita ráða.“