„Ég hef stundum bent fólki á að þegar við kjósum konu í fyrsta skipti, eða gerum yfirhöfuð eitthvað í fyrsta skipti, er það undantekning frá reglunni. En þegar við gerum það í annað skiptið erum við kannski að gera það að nýju viðmiði eða nýju normi.“
Þetta segir Halla Tómasdóttir, sjöundi forseti lýðveldisins, í viðtali á hinu fornfræga Grand hóteli í hjarta Óslóar, við Karls Jóhannsgötu, við upphaf heimsóknar þeirra Björns Skúlasonar eiginmanns hennar til Noregs, svokallaðrar ríkisheimsóknar, sem er æðsta form diplómatískra samskipta milli ríkja.
Markmið heimsóknarinnar er að styrkja enn frekar söguleg tengsl Íslands og Noregs og vinna að sameiginlegum hagsmunum þjóðanna, meðal annars á sviði varnarmála, menningar og bættrar geðheilsu.
Öryggisgæsla lögreglu við hótelið þar sem skáldið Henrik Ibsen snæddi hádegisverð daglega var gríðarleg og í tvöfaldri röð framan við bygginguna virðulegu frá 1874 skiptust þar á merktar lögreglubifreiðar og glæsibifreiðar sem teflt er fram við heimsóknir þjóðhöfðingja og eru ýmist í eigu lögregluembættisins eða leigðar er tilefni býður.
Þá skorti ekkert á norska hefða- og reglufestu á hótelinu, sömu þrír lífverðirnir frá öryggislögreglunni PST heilsuðu blaðamanni og fylgdu Guðna Th. Jóhannessyni þáverandi forseta í október 2023, vísað var til viðtalsaðstöðu á bókasafni hótelsins, sem inniheldur raunar aðeins örfáar skræður, og til að setja punktinn yfir þetta norska i benti blaðamaður nýja forsetanum á sama stól og sá síðasti vermdi á bókasafninu.
Viðtalið hefst með Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands til sextán ára, sem Halla vísar til í upphafsorðum sínum. Og forsetinn heldur áfram: „Þannig að þetta skiptir fólk máli, ekki síst finnst mér þetta skipta unga fólkið máli, ég finn mjög sterk viðbrögð, bæði frá stúlkum og strákum, við því að ég sé kona og það sé nokkuð sem við höfum sem þjóð lengi verið stolt af, að hafa verið fyrst til þess að hafa kvenforseta,“ segir Halla og er spurð hvort hún hugsi til þess að þjóðin beri þær Vigdísi saman sem kvenforsetana tvo.
„Ég held ekki, ekkert frekar en að Guðni væri endilega borinn saman við Ólaf Ragnar per se. Við höfum verið með sjö forseta á Íslandi og hver og einn hefur verið mjög ólíkur. Ef þú hugsar um það setti hver þeirra alveg sitt mark á þetta embætti og var bara hann eða hún sjálf. Þannig að ég ætla ekkert að reyna að vera Vigdís, ég ber svo mikla virðingu fyrir Vigdísi, hún á bara sín sextán ár og var sá forseti sem ég horfði mest til og gaf mér mest,“ segir Halla og rödd hennar þyngir áhersluna á hvert atkvæði auðheyrilega við samtal um Vigdísi Finnbogadóttur.
Forsetinn kveðst hafa dregið sinn lærdóm af hverjum og einum forvera sinna, allt aftur til Sveins Björnssonar. „En ég ætla bara að vera Halla,“ lýsir hún yfir í kjölfarið, „ég held að enginn geti stigið inn í svona embætti og reynt að vera einhver annar, ég held að eina færa leiðin sé að finna sinn takt og nýta sína styrkleika og lyfta um leið þeim sem á undan fóru og því sem þeir hafa gert. Við erum öll að skrifa söguna en hver og einn verður að fá að skrifa sinn kafla,“ segir Halla.
Viðtalið í heild má lesa í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast það án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.