Áform eru uppi um að á Farsældartúni í Mosfellsbæ verði byggð upp fjölbreytt þjónusta í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna. Hugmyndin er að ýmsar stofnanir, sjálfstætt starfandi sérfræðingar og félagasamtök geti haft aðsetur á svæðinu og að þar muni jafnvel rísa meðferðarþjónusta sem mætt getur þörfum barna og fjölskyldna sem glíma við fjölþættan vanda.
Að sögn Haraldar Líndal Haraldssonar, stjórnarformanns Farsældartúns, sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra, er stefnt að því að uppbygging hefjist árið 2026
Á Farsældartúni, sem áður hét Skálatún, hefur verið veitt þjónusta við fatlað fólk frá árinu 1954, en fram til ársins 2023 var svæðið rekið af sjálfseignarstofnuninni Skálatún og IOGT á Íslandi. Fatlað fólk hefur enn búsetu á svæðinu, en árið 2023 urðu þær breytingar að bæði IOGT og sjálfseignarstofnunin hættu aðkomu að þjónustunni og tók Mosfellsbær hana yfir.
Um nokkurt skeið höfðu staðið yfir viðræður á milli Mosfellsbæjar og IOGT um ráðstafanir á eignum, skuldum og lóðarréttindum eftir að Mosfellsbær tæki yfir þjónustuna við íbúa sem þar eru.
„Niðurstaðan úr þeim viðræðum varð að það voru gerðir samningar þar sem IOGT ánafnar öllum eignum ásamt skuldum þeim tengdum og lóðaréttindum til sjálfseignastofnunar sem var stofnuð til að halda utan um þetta, en skilyrðið er að á endanum eignist ríkið þetta allt saman. Það er líka kvöð í þessum samningi, að verði ekkert af þessari uppbyggingu verða til verðmæti sem greiða þarf fyrir. Það er skilyrt í samkomulaginu að ef þau verðmæti koma til verði þeim skilað til ríkisins til að byggja upp þjónustu við börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra,“ segir Haraldur.
Ný sjálfseignarstofnun, Farsældartún, tók svo við eignarhaldi og rekstri fasteignanna, undir þeim formerkjum að á svæðinu yrði veitt þjónusta í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.
Haraldur bendir á að Farsældartún sé um 6 hektarar lands og að sérstaðan felist í því hægt sé að skipuleggja þjónustuna alveg frá grunni, miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag um þjónustu sem mætir þörfum barna. Hins vegar sé það ljóst að ekki er hægt að vera með alla þjónustu við börn og ungmenni með fjölþættan vanda á einum og sama stað.
Rætt hefur verið um Farsældartún í tengslum við nýtt meðferðarheimili sem til stóð að myndi rísa í Garðabæ, en sú hugmynd var ekki viðruð við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ.
Í tölvupóstsamskiptum á milli starfsmanna mennta- og barnamálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu og Framkvæmdasýslu ríkiseigna á síðustu tveimur árum, þar sem rætt var um stöðu meðferðarheimilisins, kom fram að ákvörðun hefði verið tekin um að reisa það frekar á Farsældartúni en í Garðabæ, vegna deilna um byggingarréttargjöld.
Slíkt meðferðarheimili fellur hins vegar ekki undir hugmyndir að þeirri starfsemi sem gert er ráð fyrir að verði á Farsældartúni. Meðferðareiningar sem þar myndu rísa væru frekar hugsaðar sem búsetukjarni/-ar fyrir börn með fjölþættan vanda og meðferð fyrir börn með vægari vanda.
Vinna við deiliskipulag svæðisins stendur yfir, en það eru Efla og Teiknistofan Stika sem sjá um það í samstarfi við sjálfseignarstofnunina og þá aðila sem munu mögulega flytja á svæðið þegar það verður uppbyggt.
Í byrjun desember sl. var haldinn opinn íbúafundur í Mosfellsbæ um Farsældartún. Markmiðið með fundinum var að upplýsa íbúa og aðra hagsmunaaðila um þá starfsemi sem fyrirhuguð er og er í mótun á svæðinu.
„Ánægjulegt var að vera á þessum fundi og finna það hlýja viðmót íbúa Mosfellsbæjar til verkefnisins sem kom skýrt fram á fundinum,“ segir Haraldur.
„Að undanförnu hafa m.a. farið fram viðræður um uppbygginguna við starfsfólk sveitarfélaga sem koma að þessum málum og starfsfólk þeirra stofnana sem hugmyndir eru um að gætu verið þarna,“ segir Haraldur.
Meðal annars hefur verið rætt við Barna- og fjölskyldustofu, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Ráðgjafar- og greiningarstöð. Þá er hugmyndin að á svæðinu rísi einhvers konar létt meðferðarþjónusta og jafnvel vistunarúrræði. Einnig að þar geti haft aðsetur sjálfstætt starfandi sérfræðingar og félagasamtök, sem starfa í þágu barna og ungmenna.
Einnig eru uppi hugmyndir um að gera ráð fyrir íbúð/-um fyrir fjölskyldur barna af landsbyggðinni sem þurfa að sækja þjónustu á svæðinu.
Haraldur tekur þó fram að ekki hafi verið teknar formlegar ákvarðanir um uppbygginguna.
„Á þessu stigi er þetta allt á umræðustigi. Ríkið hefur sínar reglur um það hvernig til að mynda staðarval o.s.frv. fer fram og ég tel að við þurfum að ganga í gegnum það allt saman. En ég tel að við höfum ýmislegt upp á að bjóða sem ætti að gera það að verkum að ríkið gæti horft til þess sem við erum að undirbúa,“ segir Haraldur.
„Við sjáum mikla samlegðarmöguleika, þarna yrði hægt að nota sameiginlega fundaaðstöðu, mötuneyti og starfsfólk getur jafnvel verið inni á sama gólfi þó að það tilheyri ekki sömu stofnun og þar með er samnýting á sérhæfðu starfsfólki möguleg,“ bætir hann við.
Ýmsir möguleikar opnist með því að hafa þjónustuna á sama stað.
Þessi gjöf IOGT muni skapa eigið fé í félaginu sem muni nýtast í viðræðum við lánastofnanir um lán til framkvæmda. Þá verði við útreikning á leigu til ríkisins ekki gerð krafa um ávöxtun á eigið fé stofnunarinnar.
„Við teljum okkur geta boðið upp á leigusamning/a við ríkið m.a. fyrir þær stofnanir sem hér hafa verið nefndar og jafnvel fleiri. Hér er um óhagnaðardrifið félag að ræða. Leigan þarf því eingöngu að standa undir afborgunum og vöxtum af þeim lánum sem þarf að taka vegna framkvæmda, fasteignagjöldum, tryggingum, viðhaldi og einhverjum rekstrarkostnaði.
Markmiðið er að leiguverð sé mjög samkeppnishæft og að í lok leigutímans eignist ríkið viðkomandi húsnæði með þeim réttinum sem því fylgir án frekari greiðslna, þ.e. umfram leigugjöld á tímabilinu,“ útskýrir Haraldur.
Líkt og áður sagði er hugmyndin um að ýmiss konar meðferðarþjónusta verði á Farsældartúni og vísar Haraldur til nokkurra úrræða sem fram komu í tillögum í skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda, sem skilað var til mennta- og barnamálaráðherra haustið 2023.
Engin af fjórtán tillögunum sem koma fram í skýrslunni hefur orðið að veruleika og líkt og ítrekað hefur verið greint frá er úrræðaleysi mikið þegar kemur að málefnum barna með fjölþættan vanda. Skortur á fjölbreyttum meðferðarúrræðum hefur haft gríðarlega neikvæð áhrif á þennan hóp barna og hafa barnaverndarþjónustur landsins, sem og umboðsmaður barna, kallað eftir aðgerðum strax.
„Við erum ekki að gera ráð fyrir að á Farsældartúni verði eini staðurinn þar sem þjónusta við börn með fjölþættan vanda er í boði. Það er auðvitað mikilvægt að hún sé m.a. á fleiri stöðum á landinu.
Þó að við séum með einhverjar hugmyndir í dag, þá er ekkert endilega að það verði niðurstaðan. Þetta þarf allt saman að teikna upp í sameiningu og ræða. Því er mikilvægt að sem flestir komi að borðinu núna svo að tryggt sé að vel takist til,“ segir Haraldur.
„Við leggjum áherslu á léttleika svæðisins og að þar sé nægt rými fyrir virkni sem er afar mikilvægur þáttur í meðferðarstarfi. Í þeim drögum að skipulagi svæðisins sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að í boði sé fjölbreytt afþreying sem mæti áhugasviði barna og ungmenna.“
Stefnt hefur verið að því að ljúka deiliskipulagi í vor, en hvort það næst á eftir að koma í ljós.
Nokkur tími mun fara í samtöl og samráð að sögn Haraldar. En ef brett verður upp á ermar gæti deiluskipulagið legið fyrir í haust og að samhliða því væri mögulegt að útbúa útboðsgögn.
„Kannski eftir ár gæti útboðið verið farið vel af stað. Í framhaldinu geti svo tekið tvö til þrjú ár að byggja. Ef við höldum vel á spöðunum þá ætti að vera komin þarna starfsemi innan þriggja til fimm ára, en gera má ráð fyrir að það taki allt að 10 ár að byggja allt svæðið upp.“
Stefnt er að því að halda opinn fund með hagaðilum og hvetur Haraldur alla sem hafa áhuga á verkefninu að taka þátt í samtalinu. Áhugasamir geta komið ábendingum á framfæri á netfangið farsaeldartun@farsaeldartun.is
„Það ríkir mikil samstaða um það meðal landsmanna að stórefla þurfi þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur sem glíma við fjölþættan vanda. Okkar von stendur til þess að Farsældartún geti orðið mikilvægur vettvangur til að mæta brýnum þörfum þessa viðkvæma hóps,“ segir Haraldur að lokum.“